mánudagur, 18. febrúar 2008

Um allt og ekkert

Ég keyrði yfir 120 kílómetra af malbiki, nokkra kílómetra af drullu og 100 kílómetra af spegilsléttum ís á föstudag á leið minni til Akureyrar til að sjá "Fló á skinni" í útfærslu Leikfélags Akureyrar ásamt betri helmingnum.

Þar fóru nokkrir frábærir leikarar á kostum í gamanleik sem verður þó of mikill farsi fyrir mig á köflum. Ég veit ekki betur en að það sé uppselt ansi langt fram í tímann. Verð að mæla með þessari skemmtan, þó ég geti ekki mælt með nóbelsverðlaunum vegna verksins.

Svo er ég talsverður áhugamaður um hestaíþróttir og lá leið mín í troðfulla Skautahöllina á Akureyri á laugardagskvöldið til að sjá hesta hlaupa í hringi. Það var gaman. Hef þó áhyggjur af því að of fáum finnist það gaman. Að minnsta kosti telja sumir íþróttafréttamenn hestasport ekki vera íþrótt og hafa lýst því yfir sérstaklega, það er áhyggjuefni.

Að endingu þrímennti fjölskyldan mín í Jarðböðin á Mývatni á sunnudag og lágum við þar í bleyti í dágóða stund. Það er eitthvað andlegt sem gerist í Jarðböðunum í Mývatni, uppsöfnuð þreyta og andlegir kvillar hverfa á braut og gera mann að nýjum manni eftir hæfilegan tíma í þessu náttúrulega heita vatni. Hefði líklega ekki fengið betri andlega upplyftingu þótt ég baðaði mig í vígðu vatni.

Svo keyrði ég í fang lögreglunnar á Egilsstöðum á 105 kílómetra hraða. Það kostaði mig 30 þúsund. Það er litlu lægra en maður á Austurland var dæmdur til að greiða fyrir að eiga 9,99 grömm af hassi í Héraðsdómi Austurlands nýlega. Þar fór "jarðbaðið" fyrir lítið. :)

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Verst fyrir hestaíþróttirnar er að Smúll Ellingsen hefur ekki sést í langan tíma í íþróttafréttum Rúv.

Króna/EURO