Margt er ritað um mistök fréttastofu Rúv með Sigrúnu Davíðsdóttur í broddi fylkingar. Þar er fréttastofan vildi gera fasteignaviðskipti bankanna véfengjanleg, með tengingu við framafólk. Tengingin misheppnaðist, en upphaflegi tilgangur fréttaflutningsins stendur óhaggaður.
Söluferli bankanna á ýmsum eignum er ógagnsæ, og til þess fallinn valda vangaveltum um spillingu.
Punktur 1: Fasteign fer í almennt söluferli. Hún er sett í sölu hjá fasteignasala. Hvaða gegnsæja ferli ákvarðar um hvaða fasteignasali fær hana til sölu?
Punktur 2: Hvað er það sem tryggir að fasteignasalinn auglýsi eignina í dagblöðum eða netinu? Hverjir eru það sem frétta að eignin er á söluskrá?
Punktur 3: Hvað er það sem tryggir að vinur bankamanns fréttir ekki fyrir tilviljun að ákveðin eign sé komin á söluskrá hjá ákveðinni fasteignasölu?
Punktur 4: Hvenær er það sem bankinn tekur ákvörðun um að besta verði sé náð? Er það þegar Jón býður 69 milljónir, eða þegar séra Jón býður 69,2 milljónir korteri seinna?
Punktur 5: Hvenær er það sem fasteignasalinn ráðleggur bankanum að selja undir markaðsvirði? Er það þegar Jón hefur boðið 69 milljónir, eða þegar séra Jón hefur boðið 69,2 milljónir?
Opið söluferli er þegar eign er AUGLÝST til sölu, þá er tekið á móti TILBOÐUM í lokuðu umslagi, og þau OPNUÐ á sama tíma í sama rými að VIÐSTÖDDUM þeim er þessa óska. Er það kannski OF opið? Væri það of vel til þess fallið að auka trú almennings á bankastarfsemi og fasteignasala?
Alveg með sama hætti mætti fjalla um lausafjáreignir og hlutafélög á vegum bankanna.
Umræðan um lokað ferli eignasölu bankanna verður að halda áfram - því sem næst öruggt er að þar sem spillingu verður við komið, þar notfæra Íslendingar sér tækifærið.