miðvikudagur, 8. desember 2010

Pólitískt rangeygður

Það er ágætt að vera ekki partur af stjórnmálasamtökum. Það er einhvern veginn eins og að vera áhangandi knattspyrnuliðs. Maður verður einhvern veginn blindur á leikinn. Tekur bara eftir því hvað annað liðið gerir vel eða illa. Svoleiðis verð ég þegar "ég held með" stjórnmálaflokki. Þegar illa gengur finnst mér þá að eigi að reka "stjórann" eða "skipta út" leikmanni. Og þegar "andstæðingurinn" skorar þá öskra ég á dómarann RANGSTAÐA (lesist: lýðskrum).

Pólitísk afstaða getur gert mann svo andskoti pólitískt rangeygðan.

Það er svo frjálslegt að hafa sitt eigið X í eigin vasa.

föstudagur, 3. desember 2010

Lífeyriskerfið drasl og dót?

Lífeyriskerfið stendur - og er skrifað í bók eins og um boðorðin tíu sé að ræða. Lög um lífeyrissjóði eru lítið gagnrýnd af stjórnmálafólki, samtökum launafólks og almenningi - svona rétt eins og GUÐ hafi talað þegar lífeyriskerfið var njörvað niður.

Er lífeyriskerfið kannski DRASL og DÓT?

Sammála get ég verið þeim "brjálæðingum" sem vilja sameina fjölmarga eða alla lífeyrissjóði landsins í einn stórann og hagræða þannig í "greininni". Þá myndi stjórnarmönnum, og ýmsu starfsfólki fækka mikið. Hægt væri að reka fjárfestingadeildaskiptan sjóð með minni tilkostnaði en nú. Sérfræðiþekking myndi aukast á ákveðnum tegundum fjárfestinga, og svokallaðar áhættufjárfestingar lífeyrissjóða yrðu úr sögunni.

Einnig þyrfti að einfalda útreikning lífeyrisréttinda. Hægt væri að sjá fyrir sér að samtryggingardeild rukkaði iðgjöld trygginga og stæði undir tryggingahluta lífeyriskerfisins. Svo yrði sérstök lífeyrissöfnunardeild sem gæfi út með reglulegum hætti hver nákvæmlega inneign sjóðfélaga er á hverjum tíma. Inneignin yrði svo bundin erfðalögum eins og aðrar sjóðainnistæður í landinu. Útgreiðslukerfi þarf að rýmka og gera sveigjanlegt að einhverju marki.

Eða er það kannski ekki bilun að safna 10% tekna sinna í sjóð, allt sitt líf - og deyja svo 68 ára án þess að nokkur ættingji þinn njóti einu sinni góðs af því?

Er núverandi kerfi kannski tilvalin leið til að halda fátækum fjölskyldum áfram fátækum?

Annar stór kostur við að gefa út nákvæma inneign sjóðsfélaga, og binda í erfðalög, er að allir launþegar í landinu verða um leið áhugasamir um rekstur lífeyrissjóða - og láta sverfa til stáls um leið og mistök eru gerð í rekstri sem leiða til lækkunar innistæðna. Þetta myndi leiða til betri sjóðastjórnunar.


miðvikudagur, 1. desember 2010

Að gefa ráðgjöfum ráð

Nú hlýt ég að vera afskaplega heimskur og vitlaus að nefna þetta, sérstaklega þar sem ég er sammála manninum.

ENN, Sigurður Kári, varaþingmaður, bloggar (talar undir rós) um hvaða niðurstöðu skynsamlegt er að ráðgjafaþing um stjórnarskrána komist að. Ég stend í þeirri trú að þingmenn eigi að hafa þroska til að tjá sig ekki um breytingar á stjórnarskránni, þartil ráðgjafaþingið hefur skilað niðurstöðu.

Ósmekklegt að hópur fólks (þingmenn) sem engan veginn hefur verið hæft til að gera nauðsynlegar breytingar á stjórnarskrárplagginu skuli þurfa að vera með opin munninn vegna þess.

þriðjudagur, 30. nóvember 2010

Eitthvað um niðurstöður

Þessi frétt Skessuhorns um að þrír fulltrúar frá landsbyggðinni hafi hlotið kjör á stjórnlagaþing er athyglisverð.

Sérstaklega er hún umhugsanarverð fyrir nýja þingmenn stjórnlagaþings.

Sem betur er það nú svo að landsbyggð/höfuðborg er alls ekki svo stór breyta þegar kemur að því að skrifa stjórnarskrá. Hún verður alltaf hlaðin lýðræði og manngæsku.

Hættan við að stilla nokkurn tímann upp pólitísku kosningakerfi á þann prófkjörsmáta sem nú var gert, hlýtur að vera afskaplega hættulegt. Að mínu viti áttu öll atkvæði sérhvers kjósanda að hafa sömu vigt. Þá væri hægt að telja heildarfjölda atkvæða og hlutur landsbyggðar jafnast. Þ.e. meirihlutaræði verður ekki algjört, þá er tryggt að veikur minnihluti (eins og landsbyggðin) fái rétt hlutfall fulltrúa - þ.e. ef sá hópur kýs á annan hátt.

Að auki er ég ALLS EKKI viss um að vigtarmunur atkvæða hafi verið kynntur nógu vel til. almennings. Í það minnsta voru í það minnsta tveir kjörstjórnarfulltrúar EKKI vissir, er ég spurði þá út í þetta á kjörstað kl. 21:15 á kjördag. (þegar kjörstað var að loka) Ég spurði af því ég var ekki sjálfur viss. Öðrum kjósanda sem þar var staddur fannst þetta reyndar heimskuleg spurning, þar til hann heyrði svarið - það kom honum á óvart.

Það væri verðugt verkefni stjórnmálfræðinnar í Odda að rannsaka hvort úrslit kosninga hefðu orðið mikið öðruvísi ef vigt greiddra atkvæða milli frambjóðenda hefði verið jöfn.

Nýjir stjórnlagaþingsfulltrúar verða að vanda sig afar vel, þegar atkvæðavægi milli landsbyggðar og höfuðborgar verður jafnað. Það verður að gera þannig að tryggt sé að almenn sátt ríki til frambúðar um nýtt "system". Ég undirstrika að ég er afar sammála því að JAFNA verður atkvæðavægi í alþingiskosningum. Það er hrikalega ósanngjarnt að atkvæði margra landsbyggðarmanna vigti mun meira en annarra íbúa landsins. Tryggja verður að nýtt fyrirkomulag verði ekki undir ógnarvaldi meirihlutans, heldur fái minnihluti hlutfallslega jafn marga fulltrúa út úr kosningum.

Ég veit að 22 fulltrúar höfuðborgarinnar geta lagt til að Ísland verði eitt kjördæmi, en mig grunar að þeir hafi meiri visku en svo. Til eru aðrar leiðir.

Aðalmarkmið stjórnlagaþings hlýtur að vera að tryggja að kenningar Montesquieu um þrískiptingu ríkisvaldsins nái fram að ganga óheft í Íslandi, og bæta þar með íslenska stjórnskipan.

Svo vill ég benda á að Gunnar Hersvein vantar á stjórnlagaþing - það hefði verið notalegra að hafa vellandi viskubrunn þar innandyra.

föstudagur, 26. nóvember 2010

Er #1295 málið?

Ég man þegar símanúmerið heima var 1295. Síðan hafa þrír stafir bæst framan við.

Ef einhver frambjóðandi á stjórnlagaþing reynist með #1295 - þá hlýtur hann/hún mína kosningu.

Að öðru leyti ætla ég að velja fólk sem ég kannast lítillega við og treysti smá.

Þetta er svokallaðar persónukjörs kosningar. Við komum til með að sjá hvernig þær reynast.

Persónukjör og landið eitt kjördæmi virðist því miður vera sérstakt áhugamál of margra frambjóðenda.

Of fáir virðast því miður hafa áhuga á því hvernig kenningar Montisquieu um þrískiptingu valdsins gætu virkað best í reynd með breyttri stjórnarskrá?

Of fáir virðast velta því fyrir sér hvort við þurfum í alvörunni að hafa fjallkonu (forseta) í fullu starfi með full fríðindi og gríðarhá laun?

Of fáir virðast velta því fyrir sér hvernig megi bæta þjóðþingskosningar og jafna atkvæðamagn allra kjósenda, án þess að fara út í persónukjör?

Jæja annars er allt gott að frétta að austan. Frekar ólíklegt að við munum eiga einn fulltrúa á stjórnlagaþing, vona samt að það komist einn inn....?

laugardagur, 13. nóvember 2010

Í þakkarskuld við Eirík Jónsson

Ég ætla nú ekki að leyfa mér að segja að Eiríkur Jónsson sé vanmetinn blaðamaður.

Allir blaðamenn ná einhvern tímann á lífsleiðinni að láta gott af sér leiða, og gagnast lesendum/áheyrendum sínum með einhverjum hætti. Fyrir mína parta skulda ég Eiríki stórann greiða.

Það var einhverju sinni þegar Eiríkur var með viðtalsþátt á Stöð 2. Þangað komu hinir og þessir og voru yfirheyrðir að hætti Eiríks Jónssonar. Einhverju sinni, þegar þættirnir voru búnir að vera of lengi á dagskrá og greinilega var erfitt að fá viðmælendur í þáttinn, þá fékk Eiríkur í heimsókn einhverja konu. Konan var óþekkt með öllu, en hafði með sér vatnsskál, gillette rakfroðu og gillette raksköfu. Þar kenndi hún réttu handtökin við að raka sig. Og ég unglingur taðskeggjaður, horfði á þátt Eiríks fullur af áhuga, og lærði að raka mig.

Þetta er ritað feitum stöfum á hjarta mitt: ÞAÐ ER EIRÍKI JÓNSSYNI AÐ ÞAKKA AÐ ÉG KANN AÐ RAKA MIG.

Segið svo að Eiríkur Jónsson sé ekki mikilvægur blaðamaður.

föstudagur, 12. nóvember 2010

Nornameðalabókin

Ó.

Mikið held ég að þeir muni eiga ömurleg jól sem þurfa að eyða orku í að rífa pappír utan af bókinni hennar Jónínu Benediktsdóttur. Þessir punktar úr æviminningum hennar um það hvernig hún kom Hreiðari Má til að vatna músum er einkar athyglisvert, svona meðul eru nornir aðeins ánægðar með að hafa bruggað og gefið, held ég svei mér þá.

Allavega frábið ég mér að handleika bókina, sem virðist vera ein allsherjar drullumalls-stólpípa erfiðrar lífsgöngu.

fimmtudagur, 11. nóvember 2010

Ömmi öskrar af schnilld

Ögmundur fær rúmlega tuttugu prik í kladdann fyrir að tala um hluti sem skipta máli.

Hámarksvextir = 2% á verðtryggð lán = Hallelúja

Auðvitað hlýtur hann að taka málið upp í ríkisstjórn og leggja fram frumvarp á Alþingi, sem að sjálfsögðu ætti að vera meirihluti fyrir ef skoðað er hvað þingmenn hafa sagt um þessi mál.


laugardagur, 6. nóvember 2010

Líklegt til vinsælda e. Hannes Hólmstein

Þetta lag á Youtube eftir Hannes Hólmstein Gissurarson, í útsetningu Eyþórs Gunnarssonar er hrein og tær snilld - ég kann að hafa hlegið talsvert er ég sá og heyrði.

miðvikudagur, 3. nóvember 2010

Að skrifa "fréttir" með rassgatinu

Rakst á þessu "stórbrotnu" frétt á dv.is.

Fréttin er svohljóðandi: "Knattspyrnustjóri enska knattspyrnuliðsins Stoke, Tony Pulis, segir að það gæti liðið heill mánuður áður en Eiður Smári Guðjohnsen fótboltamaður verður kominn í nógu gott form. Pulis segist undrandi á því hvernig standi á því að Eiður sé í svo lélegu formi.

Pulis segist hafa sagt Eiði frá því að hann væri alltof þungur til að fara að spila í ensku úrvalsdeildinni. Stoke keypti til sín Eið á síðasta degi leikmannakaupa í Bretlandi og gerðu við hann eins árs samning."

Fréttin er einhver sú vinsælasta á fréttavef dv í dag.

Nú langar mig að vita eitthvað sem "blaðamaðurinn" Aðalsteinn Kjartansson getur alls ekki sagt frá í fréttinni. Var Tony Pullis viðmælandi blaðamanns, eða hvar lét hann ummælin falla? Tók Aðalsteinn viðtal við Pullis, eða var hann að lesa erlenda vefsíðu? Hvenær lét viðmælandinn orðin falla? Ef Aðalsteinn starfar sem þýðandi hjá dv.is, væri þá ekki lagi að geta þess hver í raun og veru skrifaði "fréttina" áður en hún var "íslenskuð"?

En líklega var Aðalsteinn að skrifa með rassgatinu, og situr stoltur eftir dagsverkið - hugsar sem svo: "Ég skrifaði eina heitustu frétt á dv.is í dag."

Lambakjöt á fæti

Festi kaup á fjórum lambakjötskrokkum á fæti nýverið. Svosum ekki í frásögur færandi, nema það er "slátrun" á morgun. Hef kynnt mér það helsta sem hafa ber í huga við dýradráp af þessu tagi og þegið góð ráð vinnufélaga míns sem telst vanur í heimaslátrun.

Vona að þetta hafi áhrif til lækkunar neysluvísitölu.

ps. Er að hugsa um að svíða ekki hausana.

þriðjudagur, 2. nóvember 2010

Fégráðugir utanbæjarmenn

Ókei, ég ætla að hætta mér út á hálann ís.

Því miður er ég einn af virkilega fáum sem hef rætt lítillega um gjaldþrot Kaupfélags Héraðsbúa, sem varð á tíma hrunadansins. Kaup félagsins á verktakafyrirtækinu Malarvinnslunni hf. árið 2007 virðist hafa verið lykillinn að falli félagsins sem varð á 99. starfsárinu.

Í mínum heimabæ virðast menn helst telja að fall Kaupfélagsins sé fyrst og fremst Stefáni Stefánssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra Þróunarstofu Austurlands, um að kenna. Sá mun hafa þegið á þriðja tug milljóna fyrir ráðgjöf sína við fyrrverandi eigendur Malarvinnslunnar, skv. fréttaflutningi, fyrr og nú.

Engum virðist hafa dottið í hug að sala Malarvinnslunnar hafi eitthvað með þá að gera sem báru fé á títtnefndan Stefán. Eða hafi yfir höfuð eitthvað að gera með þá einstaklinga sem töldu að kaup Kaupfélags Héraðsbúa væri nýtt tækifæri fyrir þetta margrómaða samvinnufélag og hlustuðu á drottins orð Stefán Stefánssonar að því er virðist gagnrýnislaust.

Niðurstaða margra íbúa á Fljótsdalshéraði hefur verið sú að fégráðugur utanbæjarmaður hafi gert Kaupfélagið gjaldþrota í siðblindu sinni. Nú er það í mínum augum rétt að Stefán mun vera fégráðugur, líklega ekki siðvandur og utanbæjarmaður. En hann bar hvorki fé á sjálfan sig né tók þær ákvarðanir sem þurfti að taka til að fall Kaupfélagsins liti dagsins ljós - nokkrum mánuðum áður en Jón Kristjánsson gat lokið við meistarasmíðina um 100 ára sögu KHB.

mánudagur, 1. nóvember 2010

Heimssýn bænda

Heimssýn Bændasamtaka Íslands truflar mig talsvert.

Það að Bændasamtök Íslands sjái sér fært að styrkja stjórnmálasamtökin Heimssýn sérstaklega er ákaflega merkileg staðreynd. Sem meðlimur í Bændasamtökum Íslands verð ég að mótmæla því harðlega að fé okkar félagsmanna sé notað í þessum tilgangi.

Ég veit að líklega er meirihluti félagsmanna er andvígur aðild að Evrópusambandinu. Hvergi hefur þó verið samþykkt af félagsmönnum Bændasamtaka Íslands að styrkja stjórnmálasamtök sérstaklega. Svo veit ég ekki betur en Bændablaðið sé rekið að miklum hluta fyrir ríkisstyrki. Þannig að siðferðilega orkar ákvörðun stjórnenda Bændasamtakanna mjög tvímælis, og vonandi verður þetta pólitíska prump dregið tilbaka.

sunnudagur, 31. október 2010

Troðslur framundan?

Það eru ágætis fréttir að nýr ritstjóri hefur verið ráðinn á Eyjuna okkar. Vil ég nota tækifærið og óska Sveini Birki til hamingju með vel stigið skref.

Sveinn Birkir er mér ágætlega kunnur. Hann ólst upp í Fellabæ, sem er hinum megin við Lagarfljótið - frá Egilsstöðum séð og gekk hann meira segja svo langt að vera með mér í bekk.

Í mínum bekk var Sveinn Birkir bestur í körfubolta, og lærði hann m.a. mikið af Ívari Webster í körfuboltanum. Veit að hann mun eiga nokkur góð "slam dunk" á Eyjunni.

fimmtudagur, 28. október 2010

Bingó Gröndal

Það eru litlu hlutirnir sem gleðja mig mest í lífinu. Þegar er lítið að gerast á maður ekki von á miklu.

Skellti mér í sveitabingó ásamt betri helmingnum í félagsheimilinu Iðavöllum í kvöld. Þar var meðal annars í vinning gulrætur, kartöflur, ferð til Færeyja og fleira. Ég hef aldrei verið góður í bingó, en náði þó að styrkja hestamannafélagið Freyfaxa um nokkra túskildinga með þáttöku minni.

Þetta er með skemmtilegri viðburðum sem ég hef komið á, þó fyrirfram hafi ég hiklaust sett hann á Topp 5 hallærislega listann. Hefði gefið talsvert fyrir að hafa vit á að hafa vídjókameru í farteskinu til að mynda "bingóstemmingu" í sveitinni.

Svo át ég fullt af kökum.

fimmtudagur, 21. október 2010

Jafn ómissandi og Eiðfaxi

Hef eilítið leyft öðru eyranu og auganu að fylgjast með fréttum af ársþingi ASÍ.

Gylfi Arnbjörnsson byrjaði þennan dag á Rás 2 í viðtali. Soldið gremjulegt að heyra að Gylfi virðist einungis tala opinberlega fyrir hagsmunum félagsmanna ASÍ á "ársþingsdögum". Aðra daga ársins virðist Gylfi algörlega afslappaður "dúddi", og nokkuð hlutlaus fyrir stöðunni í landsmálunum almennt.

Gleymum því ekki að Gylfi hefur farið fyrir þeim hópi innan ASÍ sem telur það EKKI mikilvægt að koma samfélaginu úr klóm verðtryggingar. Svona rétt eins og hann sé formaður félags erlendra kröfuhafa.

Mér líkar vel við verkalýðsleiðtogann á Akranesi, sem leggur til að Gylfi verði afhuga því að starfa meir fyrir ASÍ, það má reyndar segja - að það væri ekki mikil áhætta fólgin í því fyrir almenning ef Gylfi leggur skóna á hilluna. Hann er í það minnsta jafn ómissandi í mínu lífi og áskrift að Eiðfaxa.

þriðjudagur, 19. október 2010

sunnudagur, 17. október 2010

Bla bla jólakaka

Ég velti því stundum fyrir mér af hverju fólkið hefur misst trú á íslenskum stjórnmálum, og hvernig stjórnmálin eru vanmáttug að horfast í augu við sjálf sig. Stjórnmálin halda daglega áfram að draga úr tiltrú almennings á valdhafar séu viti borið fólk.

Átakafletir í þinginu eru margir. Landsbyggð vs. Höfuðborg - Ögmundararmur vs. ríkisstjórn - Sjálfstæðiflokkur vs. rest - Steingrímur og Jóhanna vs. þingflokkar - JÁkæra vs. Neikæra - Konur vs. karlar - Gamlir þingmenn vs. nýjir þingmenn - Kvótakerfissinnar vs. kvótakerfisandstæðingar - Hörð umhverfisvernd vs. náttúrugáleysi..... og svo mætt lengi telja. Þessir átakafletir skína í gegn.

Stærsta viðvörunin, þegar "trúður" var kjörin borgarstjóri í Reykjavík virðist stjórnmálunum gleymd. Það er eins og stjórnmálin biðji um að vera leyst af hólmi - svona eins og þau segi: "Plís, gerið Gnarr að forsætisráðherra Íslands."

Ég trúi því að Alþingi Íslendinga sé og verði jafn vanhæft til að fjalla um og kjósa um tillögur stjórnlagaþings til breytinga á stjórnarskránni og það hefur verið undanfarin misseri. Allir þeir prófsteinar sem lagðir hafa verið fyrir núverandi alþingi hafa brotnað í höndum þingmanna. Nánast allir hornsteinar Alþingishússins liggja sem brotnir prófsteinar.

fimmtudagur, 14. október 2010

Saarí-inn sem forseta ASÍ

Velti stundum fyrir mér af hvort þessum gæja sé meira umhugað um alþýðuna eða fé alþýðunnar. Eða er bara búið að gelda hann? Af hverju er hann svo linur? Ætli ASÍ sé verndaður vinnustaður staðnaðs háskólafólks?

Þar sem Gylfi er annars vegar - er ekkert fé án hirðis, aðeins alþýða án hirðis.

Myndi styðja byltingu innan ASÍ, gæti trúað því að þetta fólk gæti orðið partur af slíkri byltingu.

Myndi styðja það sérstaklega að Þór Saari yrði næsti forseti ASÍ - samfara þingmennsku. Hann er þó með munn fyrir neðan nefið og algjörlega ógeltur.

(æj sorrí gleymdi að í ASÍ er ekki hægt að gera byltingu sökum þess að verkalýðshreyfingin í heild hugsar meir um orlofshúsaleigu en kaup og kjör)

fimmtudagur, 7. október 2010

Vegagerðin skaðabótaskyld?

Ég er sjálfmiðaður bastarður. Þ.e. mið margt út frá sjálfum mér og hvað ég geri.

Fór til höfuðborgar Íslands í þessari viku til að vera viðstaddur jarðarför.

Og þar sem ÉG var að keyra fór ég að hugsa um umferðaröryggi og umferð yfir höfuð. Aðallega um hve langt Austurland er á eftir í umferðaröryggi sérstaklega hvað varðar vegmerkingar, einbreiðar brýr, vegrið og fleira. Sérlega á þeim hættulegu fjallvegum sem tengja byggðir Austurlands saman. Eftir að hafa keyrt nýjan kafla Skagafjarðarmegin Öxnadalsheiðar varð mér ljóst að bæta má umferðaröryggi mikið á Austurlandi með tiltölulega litlum tilkostnaði.

1. Vegstikur á 25 metra millibili á heiðum í stað 50 metra millibils myndi fækka þeim er "ráða" ekki við akstur í lélegu skyggni um meir en helming. Þegar slys verða á Austurlandi kenna eldri menn því um að ökumaðurinn hafi ekki verið nægilega reyndur og afslappaður í lélegu skyggni. Það er reyndar ekki rétt, mestur partur af útafakstri á vegum á Austurlandi á sér stað þegar sést ekki milli vegstika (eða illa) vegna skafrennings, kófs eða þoku. Þessum slysum mætti því fækka með styttra bili milli stika. 50 metra millibil milli stika á heiðum er það sama og á söndunum á Suðurlandi þar sem skyggni er yfirleitt um 3-5 kílómetrar.

2. Vegrið eru nú sett víða þar sem hátt er fram af vegum. Á Austurlandi þarf fallhæð oft að vera meir en 100 metrar, að mestu frjálst, til að vegrið þyki nauðsyn. Frjálst fall virðist á mörgum stöðum ekki nægjanleg ástæða fyrir vegriðum. Alvarlegum slysum má því nánast útrýma með u.þ.b. 1000% aukningu á vegriðum á heiðum Austurlands - ódýr og hagkvæm aðgerð. Sem mátti ráðast í meðan stærri fjárveitingar eru ekki sýnilegar fjósbitanum.

3. Hreinsa mætti vegstikur með reglulegri hætti á Austurlandi til að endurskin sjáist betur. Þar sem þau eru léleg væri ráð að líma nýtt endurskinsmerki á. Hver límmiði ætti ekki að kosta meir en nokkra tugi króna.

4. Til að auka umferðaröryggi og fækka óþarfa útköllum björgunarsveita mætti þjóðvegur 1 liggja um Suðurfirði.

Að lokum verð ég að segja að við útafakstur á heiðum á Austurlandi þá er nánast hægt að fullyrða að Vegagerðin sé skaðabótaskyld vegna lélegra öryggismerkinga og fallvarnarbúnaðar. Hugsanlegt er að tryggingafélög og ökumenn eigi bótarétt á hendur Vegagerðinni sem hefði getað komið í veg fyrir slys með betri merkingum - merkingum sem þeir telja nauðsynlegar á sambærilegum eða auðveldari vegköflum.

mánudagur, 4. október 2010

Þorpsfífl spáir í mótmæli

Hvað myndi ég gera sem mótmælandi? Mig hefur oft langað til að mótmæla fyrir utan Alþingishúsið. Ég er þyrstur í að mótmæla. En ég bý í sveit um það bil 700 kílómetra frá Alþingishúsinu og er frekar bitlaus þaðan. Að fljúga til Reykjavíkur kostar mig reyndar 1,8 sinnum meir en Reykvíking að ferðast til borgar í Amríku - en það er reyndar önnur saga, algjör útúrdúr.

Oft hefur mér verið hugsað ef ég væri staddur á sunnan heiða þá myndi ég sko fá lánaðan 12.000 lítra mykjudreifara og keyra úr honum á Alþingishúsis til að auka grósku í huga þingmanna. Allar hugmyndir sem ég fæ eru alltof stórar og ganga of langt - og sennilega ekki fyrir svo huglausann mann sem mig.

Síðustu mótmæli sem ég tók þátt í voru á Egilsstöðum í janúar 2009. Þá mættu sjö manns og kveiktu í europallettu. Nokkur hundruð manns keyrðu framhjá til að athuga hverjir þessir sjö væru. Þrír lögreglumenn sáu um að halda skikki á mótmælendum. Þetta var rétt við Landsbankann á Egilsstöðum. Þetta kvöld hverfur mér seint úr huga, aðallega fyrir hversu mér þótti það misheppnað. Mér leið eins og þorpsfífli á eftir, frekar en öflugum mótmælanda

Jóhann ef bara væri 2005.....


"Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar, sem flutt er af öllum þingmönnum Samfylkingarinnar, um að fram fari heildarendurskoðun á lögum um landsdóm og lögum um ráðherraábyrgð."

"Flutningsmenn telja einnig að rétt sé að kanna hvort ekki væri eðlilegt að tryggja betur rétt minni hlutans á þingi til málshöfðunar. Ástæða þess er einkum sú hefð sem hér er fyrir meirihlutastjórnum og því nauðsynlegt að réttur minni hlutans verði betur tryggður. Það styrkir lýðræðið og veitir um leið stjórnarmeirihlutanum hverju sinni meira aðhald."

"Má t.d. benda á að í Danmörku geta ráðherrar orðið ábyrgir vegna athafna undirmanna á grundvelli skorts á eftirliti og leiðbeinandi fyrirmælum."

"Ljóst er að æðstu embættismenn framkvæmdarvaldsins fara með vandmeðfarið vald og nauðsynlegt er að samhliða slíku valdi fari rík ábyrgð, enda bera ráðherrar ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum samkvæmt lögunum og stjórnarskrá. Því er nauðsynlegt að styrkja lög um ráðherraábyrgð og veita með því ráðherrum nauðsynlegt aðhald,"


fimmtudagur, 30. september 2010

Var það annar Björgvin?

Æj það er svo "frábært" að Björgvin skuli vera mættur á þing á nýjan leik eins og segir frá í frétt mbl.is

Mig langar svo að vita hvaða sérstöku hugsjónum hann mun berjast fyrir af lífi og sál. Hvernig hann muni sýna okkur öllum fram á það að þetta var ekki hann sem var heimskur viðskiptaráðherra árið 2007, heldur einhver annar gæi - sem bara óvart var nauðalíkur honum og hét sama nafni, einungis ekki jafn gáfaður hugsjónamaður.

Þröngt mega sáttir sitja! Þú ættir beita þér af alefli fyrir rýmra plássi fyrir þingmenn og þægilegri stólum Björgvin, það er ömurlegt að horfa upp á þetta.

miðvikudagur, 29. september 2010

Gömlukarlasamfélagið

Geir Haarde er peð sem eitt sinn var forsætisráðherra og þar áður fjármálaráðherra. Nú er hann hættur í stjórnmálum. Reyndar er ekki litið á fyrrverandi ráðherra og formenn Sjálfstæðisflokksins sem peð í Valhöll. Öllu heldur verða þeir eins konar skurðgoð, eða jafnvel skuggaformenn. Allur metnaður arftakanna til góðra verka fer í heppnaðar og misheppnaðar tilraunir til að ganga í augu skurðgoðanna og fá viðurkenningu eða þá jafnvel klapp á bakið.

Svona eins og litlir drengir sem gera allt það mögulega og ómögulega til ganga í augun á feðrum sínum.

Sambönd af þessu tagi er samfélagsskemmandi og koma í veg fyrir að drýgðar verði hetjudáðir við stjórn eða óstjórn landsins. Á þennan hátt hefur tekist að skapa eins konar "gömlukallaþjóðfélag" þar sem litlu kórdrengirnir syngja falskettur.

Það sama á við um Samfylkinguna sem er að verða ansi þreyttur saumaklúbbur. Þar reynir ekki lengur nein einasta kerling einu sinni að koma með góða köku á saumaklúbbskvöldin. Þar eru einungis lesin gömul prjónablöð, og kjaftað um hve Bogga hafi verið magnað prjónakvendi þótt allir hafi séð að hún kunni vart að telja lykkjur eða hvað þá lært garðaprjón.

Við búum í "gömlukerlinga- og gömlukarlaþjóðfélagi". Eða erum föst í lélegri sænskri bíómynd, þar sem bestu rökin sem færð eru fram eru: "Nei þú!"

Svei mér þá ef samfélagið er ekki komið með pípandi renniskít af öllu því maðkaða mjöli er það hefur í sig látið.

mánudagur, 27. september 2010

Að éta grjón

Hef tekið ástfóstri við nýja vöru frá MS. Það mun vera sérlega ljúffengur grjónagrautur. Lífið hefur atvikast þannig að engin á heimilinu gefur sér tíma til að mauksjóða grjónin að hætti ömmu gömlu. En nú er hægt að kaupa mauksoðinn alvöru grjóngraut á skyrdósum frá MS. Ekki slæmt.

Mikið að gerðist eitthvað jákvætt á klakanum. Mæli með fálkaorðunni til handa þeim snillingi er lagar grautinn.

laugardagur, 18. september 2010

Einbeittur "hrokavilji"

Boggan segir Atla Gíslason vera haldinn einbeittum vilja til ákæru. Lái honum hver sem vill. Stutt skeið indverskrar "jógaeinlægni" Boggunnar er liðið, og hrokinn er farinn að heimsækja Bogguna á ný. Spurning hvort Boggann er haldinn einbeittum "hrokavilja."?

laugardagur, 11. september 2010

Að skrifa með saurbleki

Andri Snær Magnason skrifar þessa meinhæðnu grein í Fréttablaðið.

Okei, það virðist lítið mál fyrir Andra að fylla blekbyttu sína af saur og draga hann á pappír þar til 101 Reykjavík lyktar af bleki hins heilaga sannleiks - skítalykt.

Skrif Andra eru senn fyndin, kaldhæðin og barnaleg. Svona rétt eins og trúarofstæki - engin millivegur, alls engin málamiðlun. Aðeins sleggjudómar og fordómar, sé þefað betur af skítablekinu.

Tölulegar afbakaðar staðreyndir, vænisýki og skemmtilegur svartur húmor. Ágæt blanda og fín í skáldsögur og gamanþætti. Það var eins og vantaði setninguna "Nei djók." svona rétt í lokin. En hún kom aldrei - manninum er semsagt ALVARA.

ER og VAR

Það er rétt hjá Jóhönnu, sem eftir henni er haft hér. Auðvitað er um að ræða áfellisdóm yfir alþingi, stjórnkerfið og stjórnarhætti eins og þeir ERU og VORU. Það sem VAR það ER, af því ekkert hefur jú breyst - mér vitanlega. Það sem breytist ekki, það ER.

miðvikudagur, 8. september 2010

Vísindamenn í LÍÚ

LÍÚ er áhrifamestu og fámennustu hagsmunasamtök á Íslandi. Þau eru einu hagsmunasamtökin nú á dögum sem virðast geta hafa slíkt hreðjatak á stjórnvöldum að undrum sætir. Í LíÚ er nokkrir tugir vindlatottandi útgerðarmanna sem telja það að fiskveiðar séu flóknari en eldflaugavísindi og að hugsanlega muni þær leggjast af ef tekjur af þeim renna í fleiri vasa.

Íslenskir fjölmiðlar eru svo sólgnir í að birta auðvelt fengið efni, að þeir hafa óafvitandi gert LÍÚ að einum fárra máttarstólpa íslensks samfélags.

Ég leyfi mér að efast um að ráðandi öfl innan LÍÚ telji fleiri kvikindi en félag Íslenskra bólstrara.

föstudagur, 25. júní 2010

meninga peninga

Málið hefur einfaldast fyrir mér í kjölfar yfirlýsinga vegna nýfallins hæstaréttardóms um gengistryggð lán.

Íslenskir þjóðfélagsþegnar áttu að greiða fyrir fall bankanna og endurreisn þeirra með ósanngjörnum og ólöglegum lánakjörum.

Peningarnar sem taldir voru í bílalánum eru nú í "money heaven". Já og viðskiptaráðherra reynir að vekja þá upp frá dauðum.

sunnudagur, 20. júní 2010

Jaliesky Garcia Padron

Ég horfi á valda leiki í heimsmeistarkeppni Karla í knattspyrnu. Frekar skemmtilegt sport verð ég að segja.

Er frekar velviljaður Argentínu, Þýskalandi og Englandi.

Argentínu vegna þess að þeir spila frábæran fótbolta.

Þýskalandi, jú af því betri helmingur kemur þaðan - og jú svo er ég af þýskum ættum.

Englandi, ég veit ekki hvers vegna - en líklega held ég mest með þeim. Þekki nöfn flestra í liðinu og ákaflega þægilegt að halda með þeim.

Eitt er þó ljóst, að horfa uppá Emilie Heskey í ensku landsliði er líkt og var að horfa upp á Jaliesky Garcia Padron spila með íslenska handboltalandsliðinu - þ.e. ákaflega og sérstaklega pirrandi.

laugardagur, 19. júní 2010

Bla bla jólakaka

Össur Skarphéðinsson staðfestir ráðaleysi og þau djúpu hjólför ríkisstjórnarinnar sem illmögulegt virðist að komast upp úr. Með hugmynd sinni um þjóðstjórn veit hann sem er, að mögulega getur hann orðið leiðtogi slíkrar ríkisstjórnar. Hugmyndin virkar góð við fyrstu hlustun - jákvæðni var það fyrsta sem kom upp í huga mér.

Í framhaldinu hitti Ögmundur Jónasson svo sannarlega naglann á höfuðið í viðtali við mbl.is segir hann m.a.:
„Í stuttu máli hef ég ekki sannfæringu fyrir því að við náum betur saman um að tryggja betur almannaeign á auðlindum, að stokka upp fiskveiðistjórnunarkerfið og tryggja opinbert eignarhald á orkuauðlindum með aðkomu fleiri flokka að ríkisstjórn. Ég hef ekki sannfæringu fyrir því.“

Ansi rökgóð hugsun hjá Ögmundi. Framsókn og Sjálfstæðisflokkur munu ekki taka þátt í dreifingu ættjarðarauðlinda á fleiri hendur.

Eftir stendur að hvorugt líst mér á, þ.e. áframhaldandi hjólfarahjakk ríkisstjórnarinnar eða þjóðstjórn með vísan í orð Ögmundar.

Ef til vill eru kosningar með haustinu snjöll leið til að fá fram þjóðarvilja. Á sama tímapunkti væri hægt að framkvæma hliðarkosningar um fulltrúa á stjórnlagaþing.

Áhættan er vissulega sú fyrir alla flokka að ef þjóðstjórn er ekki leiðin, og ef ríkisstjórnin fer ekki í massíva endurskoðun á aðgerðaplani sínu og eftirfylgni stefnumála, þá verði kosningar til þess að kraftur fjórflokksins þverri um sinn. Pólitísk staða gæti orðið sú að loknum kosningum að VG tapi talsverðu fylgi, enda gangi þeir klofnir og ósamstíga til kosninga eftir erfitt ríkisstjórnarsamstarf og blóðug prófkjör. Að Samfylking tapi út á ódrýgðar gjörðir sínar til handa almenningi og jöfnuði í landinu og skort á forystu. Að Sjálfstæðisflokkur standi brauðfótum með meinta höfuðpaura spilltra prófkjörsmála enn í forgrunni. Að Framsóknarflokkurinn standi uppi laskaður með allnokkra landsbyggðarþingmenn og engann í Reykjavík. Að óþekkt ókomið afl eigi auðvelt með að eigna sér 20-30% atkvæða í alþingiskosningum.

Hversu mikið sem ég velti stjórnarmunstrum fyrir mér, kemst ég alltaf að þeirri niðurstöðu að kosningar innan skamms tíma er ágætis lausn fyrir íslenska þjóð.

föstudagur, 18. júní 2010

Grillað í kvöld


Mikið óskaplega er búið að vera heitt og notalegt í garðinum í dag. 21 gráða þykir mér sallafínt. Hrossin tvö sem kvenpeningurinn er búin að setja í garðinn sem lífræna sláttuvél eru líka afar heimilisleg.



Í kvöld ætla ég að grilla - þótt ekkert hafi ég grætt í dag.

miðvikudagur, 16. júní 2010

Ýkt er drama Ómars

Hér er um að ræða áhugaverða ábendingu frá Ómari Ragnarssyni fyrrverandi rallý-ökumanni. Var einmitt nú rétt nýverið á þessum slóðum og veitti leirfokinu við Kárahnjúka athygli, eins og örugglega allir þeir er koma á þessar slóðir. Ég einmitt tók líka ljósmyndir af ástandinu.

Ómar ef til vill ræðir ekki málið útfrá víðu sjónarhorni - heldur útfrá sjónarhorni fanatíkusins. Að vera fanatíkus á mannvirki og framleiðslu hlýtur að vera langþreytt líf til lengdar.

Ómar sleppir mikilvægum staðreyndum og afleiðum:

- Lónið er í sögulegu lágmarki á þessum árstíma.
- Því nær það yfir óvenjulega lítið landssvæði núna.
- Þess vegna liggur leir yfir miklu landssvæði, sem venjulega er þakið vatni, meirihluta árs.
- Það hefur rignt eina klst. á þessu svæði í júní.
- Sögulega miklir þurrkar mega því teljast á svæðinu, og júní yfirleitt blautur mánuður.
- Þurrkar auka leirfok.
- Það rignir í dag.
- Leir fýkur ekki næstu vikur.
- Lónið verður fullt í ágúst.
- Meira leirfok verður því að öllum líkindum ekki á þessu ári.

Að auki má til gamans geta þess að lítið mál var að keyra umhverfis lónið núna, þrátt fyrir aðeins slælegra útsýni vegna TÍMABUNDINS leirfoks.

Því verður að segjast eins og er að fyrrverandi rallý-ökuþórnum, flugkappanum sem flaug um jökulsárgljúfur og bátsmanninum við Kárahnjúka er farið að förlast á efri árum - geti hann ekki keyrt innan um leirfjúk sem lítur illa út á myndum. Ýkt er drama Ómars - þetta vissulega hafi mátt sjást leirfjúki bregða fyrir.

Té beinið kom sterkt inn


Mikið er ég stoltur af að segja frá því að besti veitingastaður á Austurlandi er á Egilsstöðum.


Lenti í því að klára mig af með grillaðan skötusel og T-bone steik af búinu á Gistihúsinu Egilsstöðum. Verð einfaldlega að segja frá því hvernig bragðlaukarnir kiknuðu í hnjánum. Skemmtilegt að geta farið með góðu fólki á einn af betri veitingastöðum landsins í eigin heimabæ. Já og síðri máltíðir hafa rifið harðar í veskið.


miðvikudagur, 9. júní 2010

ó mæ god

Eitt napurlegasta sjónvarpsefni sem hægt er að komast í tæri við er:

Tryggvi Þór Herbertsson, alþingismaður, ræðir við Óla Björn Kárason, alþingismann á ÍNN.

Ofurkapítalísk ógnarstjórn

Opinberar framkvæmdir fjármagnaðar af öðrum en ríkinu eru næsta þjóðarböl sem kallað skal yfir íslenska þjóð. Fréttir af fjármögnun íslenskra lífeyrissjóða á framkvæmdum í vegakerfinu eru dapurlegar.

Hvar verða mörkin dregin í framhaldinu? Verða vegir aðeins byggðir þar sem umferð er nægjanlega mikil til þess að vegatollar standi undir raunvaxtakröfu lánadrottna? Verður þá að leggja sérstaka vegtolla á alla vegi? Ekki getur það talist jafnrétti að sumum íbúum sé gert að greiða vegtolla á nauðsynlegum ferðum sínum um land sitt, meðan aðrir íbúar þurfa ekki að greiða slíka skatta þar eð þeir eru öðruvísi í sveit settir.

Hvernig skal byggja upp nýja vegi á landsbyggðinni og innheimta ekki vegatolla? Hvers konar flækju er verið að búa til? Uppsprettu hápólitískra deilna um ókomin ár. Hingað til hefur verið almenn sátt um að ríkið innheimti skatta og framkvæmi fyrir þá.

Er Norræna leiðin virkilega sú að ríkissjóður dragi sér nánast allt skattfé til vaxtaafborgana af lánum frá AGS og að komandi kynslóðir verði vaxtaþrælar eigin lífeyrissjóða í gegnum vegatolla og sjúkrahúsbyggingar lífeyrissjóðanna?

Er Norræna stjórnin í raun ofurkapítalísk ógnarstjórn? Verndari hægri stefnunnar?

mánudagur, 7. júní 2010

Pólitísk bangsapressa

Hef ekki upplifað mikla pólitíska pressu á Jón Gnarr borgarstjóra í Reykjavík, fram að þessu.

Er þó að finna fyrir síaukinni pressu á meistara Gnarr með hverjum deginum. Sjö ára sonur minn bíður óþolinmóður eftir ísbirninum. Hann segir: "En Jón Narrrr, sagði að þegar hann er borgarstjóri kemur ísbjörn." og svo segir hann: "Viltu koma með mér að sjá ísbjörninn þegar hann kemur?"

Verður maður ekki að segja já?

Ég geri ráð fyrir að fleiri börn í Reykjavík bíði óþreyjufull eftir bangsanum sem var lofað. Ef þú lofar barni bangsa, þá skal það fá bangsa.

sunnudagur, 30. maí 2010

Skilaboðaleikurinn

Ókei.

Að engjast í stól og reyna að lesa út úr lýðræðislegri niðurstöðu hver skilaboðin eru fyrir fjórflokkinn finnst mér ansi hallærislegur leikur.

"Við verðum að breyta okkur og endurvinna traust." segja oddvitar og formenn.

Þetta segir mér aðeins eitt - sem er þetta: Þeir sem ÞURFA að breyta sér, hafa ekki verið í pólitík af hugsjón, heldur af atvinnuástæðum, eða öðrum annarlegum.

Skilaboðin fyrir mér er þessi: Of margir í íslenskri pólitík eru aumingjar sem koma ekki til með að hrófla við hnignandi pólitísku kerfi, heldur leita eftir skilaboðum sem hjálp til að breyta ásjónu sinni.

sunnudagur, 25. apríl 2010

Draumfarir

Ítrekað dreymir mig sama drauminn.

Að ég hlaupi um, afskaplega léttur á fæti. Einhvernveginn valhoppandi. Hvert skref er ákaflega létt, og ég svíf svona 10-30 metra í hverju skrefi.

Ég hef sagt frá draumförum mínum, og er ekki einn um að hafa dreymt þetta.

Hvað þýðir þetta eiginlega?

laugardagur, 24. apríl 2010

Tapað á daginn og grátið á kvöldin

Staldraði við þessa frétt á DV.is sem gengur stærðfræðilega ekki upp, gefi maður sér hversdagslegar forsendur. - Hverjum sem þar er um að kenna, viðmælandanum eða fréttaskrifaranum.

Hvernig er hægt að vera með tvær stúlkur í vinnu og tapa hálfri milljón á dag? :) Hlýtur að greiða hátt kaup þessi ungi athafnamaður.....

miðvikudagur, 21. apríl 2010

Einn að pæla

Líklega væri rétt að breyta kjördæmaskipan Íslands. Einmenningskjördæmi með jafnt atkvæðavægi er eitt af því sem gott væri að skoða. Einnig þarf að leggja niður forsetaembættið og kjósa forsætisráðherra sérstaklega. Gætum stofnað til kosningar Fjallkonu Íslands ef við þurfum sérstakt sameiningartákn – þó er líklegt að þjóðfáninn, hafið, náttúran og tungumálið sé nægjanlega sameiginlegt og táknrænt fyrir Íslendinga.

Útkoman væri sjálfstæð hugsun meðal þingmanna. Áhrif fjórflokksins myndu dvína og jafnvel hverfa. Alþingi tæki sér sterkari stöðu sem löggjafarsamkoma. Gerræðisvald formanna ríkisstjórnarflokka yrði úr sögunni.

Þingmaður er hefur sigur í einmenningskjördæmi hefur nálægari kjósendur á bak við sig. Kjósendur fylgjast betur með sínum þingmanni, úr sínu hverfi eða kaupstað. Fyrir gjörðir sínar þarf hann að svara, með mun ærlegri hætti í einmenningskjördæmi. Ólíklegra er að þingmaður úr einmenningskjördæmi fari gegn vilja fólksins í þágu flokks eða þrengri hagsmuna. Með einmenningskjördæmi verða þingmenn sjálfstæðari og þurfa að standa í lappirnar vegna vökulli augna kjósenda. Flokkslínur verða óskýrari. Grundvallarhugmyndir og hugsjónir félagshyggju vs frjálshyggju, alþjóðahyggju vs þjóðernishyggju, byggð vs borg, o.s.fr.v. myndu þó standa óhaggaðar. Hægrið og Vinstrið stæðu óhögguð – öfgalausari.

Eða viljum við afhenda næstu kynslóðum alþingið, framkvæmdavaldið og fjórflokkinn eins það lítur út í dag?
_____________________________

ÓRGrímsson segir það óábyrgt að gera lítið úr yfirvofandi VÁ sem Kötlugos er. Enn óábyrgara þykir mér að tíunda og undirstrika VÁ sem ekki er vitað hvort er til staðar.

Jafna:
Bandaríkjastjórn gæti grandað N-Koreu með kjarnorkuflaug = Katla gæti gosið á næstu dögum.

____________________________

Það þykir ekki fínt lengur að mótmæla fyrir utan heimili, eftir að Steinunn Valdís lenti í slíku.

fimmtudagur, 15. apríl 2010

Þjóðar-ó-sáttin

Sú frétt er athyglisverð að Björgvin G. Sigurðsson ætli að víkja tímabundið af þingi. Athyglisvert er að það skuli aðeins vera tímabundið! Í kjölfar hans mega fylgja:

Össur samherji Björgvins sem leyndi hann upplýsingum og kom í veg fyrir að hann gæti rækt skyldur sínar.
Árni Johnsen, dæmdur þjófur.
Bjarni Benediktsson, einn af viðskiptamönnunum með skerta siðferðisgreind.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrir tengsl sín við "Sjö hægri".

Í þeirra kjölfar mega fleiri víkja.

Svo má hefjast vinna við að leggja niður forsetaembættið og að kippa fótum undan fjórflokknum með breyttri kosningalögggjöf og kjördæmaskipan. Endurskoðun stjórnarskránnar þolir ekki öllu meiri bið. Strax má fela fjármálaeftirlitinu að útbúa lista yfir "óvini ríksins", sem eiga þess ekki kost að eiga í stórfelldum viðskiptum við fjármálafyrirtæki sem Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með.

Þaðan má stefna í þá átt að afnema verðtryggingu og koma eignarhaldi á fiskveiðiheimildum til ríkisins. En um þessi tvö mál er sérstök "þjóðarósátt" um.

miðvikudagur, 14. apríl 2010

Erum við apar?

Við erum á Íslandi – og erum Íslendingar. Vinnusöm og veiklunduð.

Ógengin í gegnum talsverða sjálfskapaða kreppu göngum við nú til verks og bendum hvert á annað – og segjum: “Nei, þú.”, “Það var hann.”, “Það var hún.” Góðu fréttirnar eru að það er rétt – það varst þú, það var hann og það var hún.

Við vitum í raun ekkert hvað gerðist í smáatriðum. Við höfum jú nú á mánudagsmorgun fengið að vita í smáatriðum hvað sumhver sagði og gerði, eða gerði ekki. Við vitum hins vegar ekki hvernig við urðum svona heimsk – við Íslendingar.

Hvar lærðum við að vera svona andskoti heimsk og gagnrýnislaus?

Hnignun íslensks samfélags er líklega rótin að þeim vanda sem við glímum við í dag. Við erum á byrjunarreit, eftir fall Babýlon. Stjórnmál og viðskipti eru talin vera okkur veikustu hlekkir. En líklega er þó réttast að siðferði okkar og skortur á réttsýni er okkar veikasti hlekkur. Það er hlekkurinn sem skilur milli manna og dýra – hlekkurinn milli manns og apa er týndur á Íslandi. Það hefur fyrir löngu gerst.

Verkefnið sem framundan er, er ansi stórt. Að tryggja að ekkert þessu líkt gerist aftur meðan nokkurt okkar lifir.

Við þurfum að kenna börnum okkar réttsýni, heiðarleika, gagnrýni og öguð vinnubrögð, byggð á rökum en ekki tilfinningum. En hvernig er hægt að framselja það sem við höfum ekki öðlast sjálf?

Jú temjum okkur réttsýni, heiðarleika, gagnrýni og öguð vinnubrögð svo við megum framselja kynslóðum þeim er takast á við arfleifð okkar.

þriðjudagur, 30. mars 2010

Opinberar staðreyndir dagsins

Skv. ættbók íslenska hestsins hefur GLITNIR verið talsvert algengt hestanafn frá árinu 1983. Þá fæddist Glitnir frá Þverholtum. Vinsældir nafnsins sem hestanafns fóru svo vaxandi, og árin 2005, 2006, 2007 fór notkun nafnsins í nýjar hæðir.

Árið 2008 var metár í notkun nafnsins GLITNIR. Það ár voru 16 hestfolöld skírð Glitnir.

Athygli mína vekur að ekkert hestfolald hefur verið skírt Glitnir sem fæddist árið 2009.

föstudagur, 26. mars 2010

Vigga loks í Kastljósi

Vigdís Hauksdóttir (X-b) komst loksins í Kastljósið. Þar upplýsti hún að Framsóknarflokkurinn er annar tveggja stjórnmálaflokka á Íslandi sem ganga erinda útgerðarmanna sem hafa keypt sér einkaleyfi til fiskveiða. Svo æst gengur hún Vigdís til verks að hún frussar munnvatni í sjónvarpi til stuðnings einkaleyfa á fiskveiðum.

Útgerðararmur Framsóknarflokksins er reyndar ekki eins stór og margir halda - en það er víst önnur saga.

þriðjudagur, 23. mars 2010

Opinberun kjánans

Fyrir liggur nú að Vilhjálmur Egilsson og félagar í SA eru kjánar - ofurseldir hagsmunasamtökum útgerðarmanna. Þeir standa og kalla: "Við erum kjánar."

Talsmenn frjálsra viðskipta og einstaklingsfrelsis í SA vilja höft á fiskveiðar, sem felast í einkaleyfi á fiskveiðum. Það er andstæða við nokkuð annað það er þeir kveðast hafa hugsjónir fyrir.

Ekki væri þessi hugsjón ólík því að þeir teldu að engir aðrir mættu héðan í frá fá að bjóða í verklegar framkvæmdir á vegum þess opinbera, utan þá er starfa í greininni í dag. Síðan gætu verktakar veðsett einkaleyfið og áframselt það. Algjörlega jafn fráleit hugmynd og kvótakerfið.

Nú vitum við að skötuselur veiðist við Íslandsstrendur og að Vilhjálmur er kjáni.

fimmtudagur, 25. febrúar 2010

þriðjudagur, 26. janúar 2010

Gjaldþrota Kaupfélagið skuldlaust

Kaupfélag Héraðsbúa er eitt þeirra félaga sem stóð ákaflega veikum fótum árið 2008. Enda höfðu ákvarðanir stjórnarmanna þess heldur betur fjarlægst upphaflegan tilgang félagsins. Allt hvað gat kallast frumvinnsla eða vörusala til bænda var lagt af. Sláturhús, kjötvinnsla, mjólkurstöð, timbursala, fóðursala, áburðarsala o.s.fr.v. var lagt af hægt og bítandi. Bændur á Fljótsdalshéraði stóðu hjá og varla ræsktu sig þegar félaginu þeirra var smám saman skolað niður í hlandskálar snillinganna.

Svo var komið árið 2007 að Kaupfélag Héraðsbúa rak kjörbúðir á fjörðum og stórmarkað á Egilsstöðum kenndan við Samkaup. Austfirskir bændur voru heppnir ef þeir gátu selt kartöflur í þeirri verslun. Upp undir hálfur milljarður fannst í Landsbankanum skyndilega þetta ár. Hann var fenginn að láni og nýttur til kaupa á verktakafyrirtækinu Malarvinnslunni, góðkunnu fjölskyldufyrirtæki í þorpinu sem hafði verið drifið áfram af eljusemi þáverandi eigenda - sem þó sáu fyrir að fjárfestingar félagsins voru vægast sagt glannalegar nú þegar framkvæmdum við álver og Kárahnjúka var að ljúka. Þetta sá stjórn Kaupfélagsins ekki fyrir, þrátt fyrir að húsmæður á Egilsstöðum hristu höfuðið frá fyrstu mínútu. Malarvinnslan varð svo gjaldþrota á haustmánuðum 2008. Í kjölfarið varð Kaupfélagið gjaldþrota í febrúar 2009. Í sjónvarpsviðtali af því tilefni sagði Björn Ármann Ólafsson, stjórnarformaður, í stórum dráttum að þarna væri ráðgjöfum félagsins um að kenna - þeir hefðu reiknað út að allt yrði í himnalagi. Önnur skoðun stjórnarinnar hefur ekki enn verið reifuð opinberlega.

Þrátt fyrir að Kaupfélag Héraðsbúa hafi orðið gjaldþrota. Þá var það víst fyrir "miskunn" Landsbankans að leið nauðasamninga var farin. Í dag eru um 20% af kröfum greiddar eftir að allar eignir hafa verið seldar úr félaginu. Eftir því sem ég best fæ skilið er Kaupfélag Héraðsbúa því skuldlaust í dag, og eignalaust. Það er sárgrátlegt að KHB varð 100 ára á seinasta ári - þvílíkt ár í sögu félagsins. Eftir að stjórnarmenn félagsins síðasta áratuginn höfðu smátt og smátt keyrt það í þrot - heyrist lítið frá eigendum félagsins, þ.e. bændum á Héraði. Hvað ætla þeir að gera? Ætla þeir að stofna nýtt samvinnufélag? Gefast upp gagnvart samvinnuhugsjóninni? Eða kjósa sér nýja stjórn Kaupfélags Héraðsbúa, þróttmeiri bænda sem hafa þá hugsjón að stunda atvinnugreinina búskap á Fljótsdalshéraði á næstu áratugum. Og "by the way", KHB er 101 árs í ár, það er gott ár til góðra verka.

mánudagur, 25. janúar 2010

Þegar skýrslan kemur?

Fréttir um að Rannsóknarnefnd um íslenska Hrunið þurfi aukin frest til að skila af sér skýrslu sinni eru ákveðið "áhyggjuefni". Getur skýrslan orðið rótin að öflugri seinni bylgju íslenskra mótmæla? Verður hún grunnurinn að mótmælabylgju sem breytir íslenskum stjórnmálum og stjórnarháttum frá fjórflokknum í átt að einhverju allt öðru? Sú seinni bylgja væru sterkari mótmæli og meira upplausnarástand en við höfum áður séð í íslensku þjóðfélagi.

Nú getur biðin ein skorið úr um nákvæmlega hvað nefndarmenn eru að tala um á fréttamannafundum og hvað hefur verið svo pirrandi að heyra um og átta sig á.

Hvað er það sem stendur í skýrslunni sem almenningur þarf tvo til þrjá daga til að lesa, skilja og sætta sig, eða ekki sætta sig við?

Mun nefndin fara fram á aukin viðbúnað lögreglu þegar skýrslan verður loks birt? Þessarar spurningar hefðu blaðamenn mátt spyrja.

Er ég kannski of dramatískt þenkjandi?

sunnudagur, 24. janúar 2010

RÚV brýtur þjónustusamninginn

Ríkisútvarpið, með Pál Magnússon í fararbroddi hefur gert sig sekt um samningsbrot við íslenska ríkið:

"RÚV skal bjóða upp á svæðisbundnar útsendingar á efni, þ.m.t. fréttir, menningu, afþreyingu
og listir til að þjóna betur ibúum á landinu öllu."

Þetta stendur í þjónustusamningi milli Menntamálaráðuneytisins og Rúv ohf. frá 23. mars 2007. Undir hann skrifa Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þáverandi menntamálaráðherra og Páll Magnússon, ennþá útvarpsstjóri.

Rétt skal vera rétt.

Ætlar Páll Magnússon ekki að uppfylla þennan einfalda samning sem hann skrifaði sjálfur undir? Eða er leyfilegt að brjóta gerða samninga árið 2010? Gildistími samningsins er út árið 2012.

laugardagur, 23. janúar 2010

Hanna Birna í tísku?


Hanna Birna sigraði lauflétt í prófkjörinu.

En er þetta outfitt örugglega í tísku?

(myndin er tekin af www.mbl.is sem skrifar um sigurinn.)

Víst er skítafýla af eignasölunni

Margt er ritað um mistök fréttastofu Rúv með Sigrúnu Davíðsdóttur í broddi fylkingar. Þar er fréttastofan vildi gera fasteignaviðskipti bankanna véfengjanleg, með tengingu við framafólk. Tengingin misheppnaðist, en upphaflegi tilgangur fréttaflutningsins stendur óhaggaður.

Söluferli bankanna á ýmsum eignum er ógagnsæ, og til þess fallinn valda vangaveltum um spillingu.

Punktur 1: Fasteign fer í almennt söluferli. Hún er sett í sölu hjá fasteignasala. Hvaða gegnsæja ferli ákvarðar um hvaða fasteignasali fær hana til sölu?

Punktur 2: Hvað er það sem tryggir að fasteignasalinn auglýsi eignina í dagblöðum eða netinu? Hverjir eru það sem frétta að eignin er á söluskrá?

Punktur 3: Hvað er það sem tryggir að vinur bankamanns fréttir ekki fyrir tilviljun að ákveðin eign sé komin á söluskrá hjá ákveðinni fasteignasölu?

Punktur 4: Hvenær er það sem bankinn tekur ákvörðun um að besta verði sé náð? Er það þegar Jón býður 69 milljónir, eða þegar séra Jón býður 69,2 milljónir korteri seinna?

Punktur 5: Hvenær er það sem fasteignasalinn ráðleggur bankanum að selja undir markaðsvirði? Er það þegar Jón hefur boðið 69 milljónir, eða þegar séra Jón hefur boðið 69,2 milljónir?

Opið söluferli er þegar eign er AUGLÝST til sölu, þá er tekið á móti TILBOÐUM í lokuðu umslagi, og þau OPNUÐ á sama tíma í sama rými að VIÐSTÖDDUM þeim er þessa óska. Er það kannski OF opið? Væri það of vel til þess fallið að auka trú almennings á bankastarfsemi og fasteignasala?

Alveg með sama hætti mætti fjalla um lausafjáreignir og hlutafélög á vegum bankanna.

Umræðan um lokað ferli eignasölu bankanna verður að halda áfram - því sem næst öruggt er að þar sem spillingu verður við komið, þar notfæra Íslendingar sér tækifærið.

Tilgangsminni Páll

Til hamingju Páll. Þér hefur loksins tekist að leggja niður svæðisbundnar útsendingar á landsbyggðinni. Í þriðju tilraun hefur þér tekist það - ódámur.

Um var að ræða einhverja bestu þjónustu sem Rúv hefur veitt til íbúa í mínum landsfjórðungi, hið minnsta. Þess ber að geta sérstaklega að hlustun á Svæðisútvarp Austurlands var mikil, og óvíst að hlutfallsleg hlustun verði nokkurn tíma aftur svo mikil á útvarp hér á landi.

Svæðisútvarp Rúv hafði veigamikinn tilgang á Austurlandi. Því fækkar sem hefur tilgang á vegum Rúv undir þinni stjórn Páll - einkennilega mikið.

þriðjudagur, 19. janúar 2010

Um Eignarhaldsfélagið Fasteign

Læt hér liggja grein er ég ritaði í þann merka miðil Austurgluggann á dögunum:

Ryki kastað í augu fólks á Héraði
Inn um lúguna barst íbúum ellefu sveitarfélaga á dögunum fallega prentaður snepill frá EFF, eða Eignarhaldsfélaginu Fasteign. Ég skal taka það strax fram að ekkert þyngir hjartslátt minn jafn mikið og þegar EFF berst til tals, slíka ímugust hef ég á því félagi.

Bæklingurinn er tilraun til að bæta ímynd félagsins gagnvart íbúum sveitarfélaga sem koma að því. Enda segir í bæklingnum á blaðsíðu 9: “Komið hefur fram gagnrýni á að leigugreiðslur til EFF séu háar. Á sínum tíma var lagt til innan einstakra sveitarfélaga að þau keyptu eignirnar sem þau leigja af EFF og tækju erlend myntkörfulán til umræddra kaupa.”

Í framhaldi af þessum setningum eru “tvær eignaleiðir” bornar saman og EFF segir frá því hvernig leigugreiðslur hafi reynst lægri en afborganir af evrulánum. Kemur á óvart, eða þannig. Rangfærslan í textanum er sú að ekki eru bornar saman tvenns konar eignaleiðir. Verið er að bera saman muninn á því að leigja og kaupa. Jafnvel við afborganir Evrulána verður til eigið fé, sem myndast ALDREI við útgjöld eins og leigugreiðslur. Það sem þarna kemur fram er því LYGI, staðreyndum um eignamyndun er haldið frá íbúum. Staðreyndin er sú að ef sveitarfélag hefur tekið óhagkvæmt og verðtryggt íslenskt lán frá íslenskum banka eða lánasjóði sveitarfélagana, þá getur hið sama sveitarfélag eignast bygginguna að skuldlausu á 25 árum. Að þeim tíma liðnum hefur sveitarfélagið borgað nálægt því sömu upphæð í afborganir af lánum og í leigugreiðslur af byggingunni. Munurinn er sá að ef sveitarfélagið hefur fjármagnað eigin byggingu þá er hún eign eftir 25 ár. Eftir 25 ára leigutíma hefur engin eign myndast, aðeins nauðvalið að leigja áfram á sama verði. Séum við þeirri villutrú haldin að lífið vari aðeins í 25 ár, þá er hægt að staðhæfa þess háttar rugl.

Væntanlegur, ímyndaður hagnaður
Á bls. 3 í bæklingnum koma fram tvær fullyrðingar. Sú fyrri: “Þegar leigugreiðslur hafa við lok leigusamnings greitt upp allan kostnað af viðkomandi fasteignum, verður til hrein eign sveitarfélagana, sem eigenda, innan félagsins.” Sú seinni: “Allur hagnaður rennur til sveitarfélags þíns og annara eigenda.”
Skoðum hvað kemur fram í textanum. Jú aðeins hálfsannleikur. Ekki kemur fram í textanum hverjir “aðrir” eigendur félagsins eru. Það er t.a.m. Íslandsbanki að helmingi sem nú er ekki vitað í eigu hverra er. Rétt er að upplýsa að í eigendahópnum er Háskólinn í Reykjavík, sem talinn er vera í fjárhagskröggum – ekki síst vegna hárra leigugreiðslna. Eitt af ellefu sveitarfélögum sem eru í eigendahópnum er sveitarfélagið Álftanes, sem rambar að sögn fjölmiðla á barmi gjaldþrots og hefur tæmt lausafjárreikninga sína.

Væntanlegur hagnaður fer því til Íslandsbanka að helmingi og skiptist auk þess milli fjölda sveitarfélaga. Vert er að hafa í huga að væntanlegur hagnaður er ekki það sama og hagnaður. Það vitum við núna árið 2009. Það skal jafnframt tekið fram að EFF á og rekur skrifstofuhúsnæði um allt land, ætlað undir bankastarfsemi Íslandsbanka. Hver fær skilið hvernig þessi samkunda varð til? Fyrrum Glitnir, með áhættusækna starfsmenn og hluthafa virðast hafa tælt fulltrúa í hinum ýmsu sveitarfélögum til samstarfs. Ennþá loka kjörnir fulltrúar sveitarfélögum augunum fyrir því að hið opinbera á ekki að vera einokunarviðskiptum við hagnaðardrifin hlutafélög.

Í glansbæklingi EFF er einnig minnst á endurskoðunarfyrirtækið KPMG. Í skýrslu KPMG kemur fram að EFF byggi hagkvæmar byggingar. Í texta er fullyrt: “Framkvæmdir á vegum EFF eru hagkvæmari og er munurinn allt að 30%.” Fullyrðingin ein stendur, hvergi er rökstutt hvernig það má vera? Þetta sama fyrirtæki hefur nú lagt blessunarhönd sína yfir EFF. Er þetta í fyrsta skipti sem KPMG prentar skýrslu sem hentar umbjóðendum sínum? Væri ekki úr vegi að töfrasprotar EFF útskýrðu hvernig þeim tekst að halda byggingarkostnaði 30% lægri heldur en opinbera útboðskerfið? Hvaða töfralyf er eiginlega drukkið í höfuðstöðvum EFF, svo aðrir húsbyggendur í landinu roðna?

Hvað mun Grunnskólinn kosta?
Í appelsínugula glansbæklingnum frá EFF segir: “EFF fjármagnar, byggir og rekur fasteignir.” Athugasemd verð ég að gera við þennan texta. EFF gat ekki fjármagnað byggingu Grunnskólans á Egilsstöðum, og guð má vita hvað annað fyrirtækið hefur ekki getað fjármagnað. Þá reyndist sveitarfélagið Fljótsdalshérað sterkari aðili en EFF og fjármagnaði bygginguna. Hins vegar hélt sveitarfélagið samningum við EFF í gildi með hjálp lögfræðinga sem þurftu að gera sitt allra besta til að halda flóknum gjörningum gangandi.

Ennþá hefur sveitarfélagið ekki kynnt hvað Grunnskólinn á Egilsstöðum kostaði eða hvað sveitarfélagið mun greiða mánaðarlega í leigu að núvirði meðan samningurinn er í gildi, og þá hversu mikið sveitarfélagið hefur greitt samtals í leigugjöld af Grunnskólanum á Egilsstöðum eftir 30 ár, þegar að bókfærð eign í grunnskólanum verður kr. 0,-? Væri ekki rétt að birta þetta herra bæjarstjóri, kæra bæjarstjórn og elsku bæjarráð á Fljótsdalshéraði?

Það sem við vitum ekki
Einnig væri gott ef við íbúar sveitarfélagsins fengjum að vita hvað bókhaldsbrellurnar þýða fyrir rekstur og efnahag sveitarfélagsins? Er það svo að leigukostnaður vegna grunn- og leikskóla á Egilsstöðum gjaldfærist á stofnanirnar? Leiðir þetta til þess að þið reiknið kostnað á hvern nemanda nú hærri en nokkru sinni? Gæti það verið af þeim sökum að ekkert af kostnaði við rekstur bygginganna eignfærist lengur? Er það þessvegna sem þurfti skyndilega að hækka leikskólagjöld í sveitarfélaginu?

Sjálfur lýsi ég þeirri skoðun að sveitarfélagið Fljótsdalshérað ætti að selja eignarhlut sinn í EFF, þegar kaupandi fæst og leysa til sín þær fasteignir EFF sem staðsettar eru í sveitarfélaginu.

Einar Ben Þorsteinsson
áhugamaður um sveitarstjórnarmál á Fljótsdalshéraði.

mánudagur, 11. janúar 2010

Smá klám-misskilningur

Konan mín kemur inn í stofu og spyr: "Einar, viltu horfa á klám."

Heyrðist mér.

Ég hvái. Enda ekki vanur svoleiðis ósóma.

Hvað meinarðu? "Klovn er að byrja í sjónvarpinu!! Hvað hélstu að ég hefði sagt?!"

Svona er að vera með "skapandi" heyrn. Ákvað að horfa á danska trúðinn.

sunnudagur, 10. janúar 2010

Vagga austfirskrar menningar

Skrapp í bíó í kvöld. Kannski ekki í frásögur færandi, nema að bíóferðin var farin til Seyðisfjarðar - vöggu austfirskrar menningar. Filman innihélt stórmyndina Bjarnfreðarson, sem var ágæt. Líður eins og kjána að hafa ekki uppgötvað kvikmyndahúsið á Seyðisfirði fyrr en nú. Sannast það fornkveðna að stundum er lengra til Seyðisfjarðar, en frá Seyðisfirði. Allt eins og að oft er lengra frá RVK til AK, en frá AK til RVK, í praxis.

laugardagur, 9. janúar 2010

Vikugamlir hvolpar

Vinnufélagi hefur nýlega fengið 4 litla hvolpa úr tík sinni. Þeir eru vikugamlir. Hann segir þá þroskast hraðar en Sjálfstæðisflokkurinn.

"Já, þeir eru lítillega farnir að opna augun." segir hann.

fimmtudagur, 7. janúar 2010

Kvæði á vegg

Við Shellstöðina á Egilsstöðum er kvæði Páls Ólafssonar málað á vegg.

Eg vildi' eg fengi' að vera strá

og visna' í skónum þínum,

því léttast gengirðu' eflaust á

yfirsjónum mínum.

Snilldarlega ort.

miðvikudagur, 6. janúar 2010

Að spjalla sig í stjórnarkreppu

Ekki er ólíklegt annað en að Samfylking sá á ágætri leið með að tala sig út úr ríkisstjórn. Eina stjórnarmynstrið sem gæti fengið vinnufrið næstu árin. Forsætisráðherrann hefur ákveðið gera málið stærra í augum ríkisstjórnarinnar, en ástæða er til. Stjórnarliðar eru á góðri leið að kjafta sig inn í stjórnarkreppu. Umburðarlyndið er í lágmarki.

Sjálf varð vinstri stjórnin því valdandi að forsetinn sá sig knúinn til að senda lögin í þjóðaratkvæði. Ráðherra hefur sagt af sér vegna þessa máls. Þingmenn úr VG hafa haft efasemdir um lagasetninguna. Fyrrverandi formaður Samfylkingar leggst gegn lögunum. Stjórnarandstaðan er öll á móti lögunum, utan Þráinn Bertelsson. Ríkisstjórnin missti stjórn á málinu þegar horfið var frá því að keyra það í gegnum þingið í fyrra sinnið án breytinga. Eða var ríkistjórnin ekki valdameiri en þetta? Ríkisstjórn sem ekki tekur sér vald, lendir í því að einhver annar tekur sér það.

Setningar eins og: "Ríkisstjórnin eða forsetinn." munu leiða til stjórnarkreppu. Verkefni bíða ríkisstjórnarinnar á flestum sviðum. Mál eins og RÉTTLÆTI TIL HANDA ÞEGNUNUM bíða ennþá.
_________________________

Þegar ráðamenn funduðu með lífeyrissjóðum landsins um hvernig þeir gætu komið að uppbyggingu efnahagskerfis Íslendinga, kom niðurstaðan mér á óvart. Lífeyrissjóðir ætla að byggja mannvirki og leigja ríkinu þau. Afar kærkomið, eða þannig.

Ég var svo barnalegur að halda að möguleiki væri að íslensku lífeyrissjóðirnir borguðu Icesave skuldina á einu augabragði. Að greitt væri með erlendum hlutabréfum, skuldabréfum og öðrum vafningum lífeyrissjóðanna á erlendri grundu. Og að ríkið skildi ábyrgjast skuldabréf og greiða lífeyrissjóðunum tilbaka á nokkrum tugum ára - á mannsæmandi vöxtum. Skuldabréfið gæti þess vegna verið hýst á erlendri grundu, og jafnvel selt öðrum fjármagnseigendum þegar vorar í íslenskum efnahag á ný. Mál af þessari tegund hefði flogið í gegnum þingið - og væri líklegast löngu afgreitt.

En NEI. Það virðist engan veginn hægt að horfa út fyrir þann þrönga ramma sem hengdur hefur verið upp á vegg í stjórnarráðinu.

þriðjudagur, 5. janúar 2010

Útvarp hefur mismunandi áhrif

Byrjaði daginn á morgungjöf, og að pikkfesta mig úti á túni í "afskaplega" miklum snjó. Hitti svo mun síðar fyrir leigusala minn, bóndann á Úlfsstöðum, sem réði sér ekki fyrir kæti. Jú hann hafði hlustað á útvarpið kl. 11:00, og líkaði vel við niðurstöðu kollega síns á Bessastöðum. Ég hlustaði á sama þátt í útvarpinu og komst ekki í sama vímuástand af inntöku tíðindanna. Varð frekar meir hugsi. Fór að spá í því fyrir alvöru hvort ég mun segja JÁ eða NEI. Ég hallast frekar að JÁ, a.m.k. í kvöld.
_________

Rökin um að forsetinn sé að skipta sér af utanríkismálum eru vinsælust meðal andstæðinga þjóðaratkvæðisgreiðslunnar. Að mínu viti er klárlega innanríkismál hvort íslenskir skattborgarar standi skil á slíkri upphæð. Mál sem hefur áhrif á efnahag þjóðarinnar til næstu tveggja áratuga hlýtur að vera að stórum parti innanríkismál. Þess vegna leka rökin vatni.

_________

Í kvöld mætti Þráinn Bertelsson í Kastljós, ásamt hinum formönnum stjórnarandstöðuflokkanna. Flestir við borðið hringhvolfdu augunum meðan hann talaði. Ég treysti mér ekki til þess að hringla augasteinum - þar eð ég skildi ekki hvað hann var að fara.

_________

Vantar sárlega öflugan talsmann Íslendinga í Evrópu, til þess meðal annars að útskýra ICESAVE málið fyrir erlendu pressunni, og hvað veg það hefur ratað á Íslandi. Nokkrir punktar sem mætti koma áleiðis eru t.d. "We have already approved to pay for the mess of EU legislation."

_________

Sigmundur Davíð hefur veikst talsvert sem formaður Framsóknarflokksins undanfarin misseri. Líklegt er að hann fái mótframboð á næsta landsþingi Framsóknar. Áramótaskaupið hefur í ofanálag opnað augu margra. Legg til að Sigmundur fari nú þegar til Kanada að leita lausnar á millaríkjadeilum.

mánudagur, 4. janúar 2010

Hver fann ekki G-blettinn?

Í morgunútvarpinu hlustaði ég á athyglisverða frétt, sem væntanlega er fengin af mbl.is (mest lesna frétt dagsins)

Fjallað var um að breskir vísindamenn hafa rannsakað 1800 kvenmenn, og komist að því að G-bletturinn er ekki til.

Vöknuðu þá tvær áleitnar spurningar. Rannsakaði sami maðurinn allar konurnar? Hvaða aðferð var beitt?

laugardagur, 2. janúar 2010

Nýársheitin....

1. Auka ekki reykingarnar.
2. Þyngjast ekki.
3. Fjölga ekki ókláruðum verkefnum.

Gengur vel til þessa.....

Óskar á Bessastaði?

Við vitum það sem viljum vita það að ÓRG er aðeins að performera í leikriti sem brátt tekur enda. Enginn mun klappa hann upp eftir að hann hneigir sig svo virðulega á Bessastöðum eftir að hafa undirritað nýjustu lögin frá Alþingi, eftir "rækilega" umhugsun og "gáfulega" niðurstöðu. Nei hann mun engann óskar fá sendan frá Hollywood eftir það leikrit.

Vonandi förum við að tala um alvöru pólitík í framhaldinu. Um aðskilda kosningu framkvæmda- og löggjafarvalds og að leggja niður forsetaembættið. Forsætisráðherrabústaðurinn gæti hæglega orðið Bessastaðir. Vilji menn halda í svokallað sameiningartákn, þá væri auðveldlega hægt að kjósa fjallkonu til fjögurra ára í senn og gæti hún verið til sýnis í Kringlunni, Smáralind, Glerártorgi og Krónunni á Reyðarfirði til skiptis.

Öll umræða og ákvarðanir um að breyta löggjöf um lánakerfi landsmanna hlýtur að vera á næsta leyti. Tveir stórir bankar komnir úr ríkiseigu, og meira að segja enginn veit hver á þá. Því frábært tómarúm til að klára verkefnið á nokkrum mánuðum.

Hvar er annarss þessi heildarendurskoðun á stjórnarskránni?

Króna/EURO