miðvikudagur, 9. desember 2009

Jói að meika það

Það er ekki annað hægt en að hlæja að svoleiðis fréttum. Vandaður húmor!

Segir frá því að Jóhannes í Bónus fór að hitta rektor og vill að Hannesi Hólmsteini verði fórnað. Hélt að Jói hefði ekki tíma akkúrat núna.

Bakarasaga 1

Einu sinnu var bakari á Laugaveginum sem hét Guðmundur. Hann ákvað að taka lán hjá mafíósa sem hét Mr. Kaupthing. Mafíósinn kom um hver mánaðarmót og rukkaði Guðmund. Stundum ógnaði Mr. Kaupthing bakaranum með hafnaboltakylfu, í stundum þrýsti hann skammbyssu fast að hægra gagnauga hans.

Einn daginn labbaði Mr. Kaupthing inn í bakaríið í 85. skipti og sagði: "Góðan daginn Guðmundur, sjáðu nýju sólgleraugun mín. Já svo heiti ég núna Mr. Ari Jón - hef skipt um nafn - en skiptir ekki máli því ég á ennþá baseballkylfu, skammbyssu og skuldabréf.

miðvikudagur, 11. nóvember 2009

Skandinavíska stjórnin hefur umboð

Það er skratti erfitt að hlusta á raus um "brjálaðar" skattahækkanir þessa dagana. Það er löngu búið að ákveða að hækka skatta. Það var eitt af stærri kosningamálunum. Þingmenn beggja stjórnarflokka sögðu hreinskilnislega frá fyrirætlunum sínum um skattahækkanir í kosningabaráttunni. Kjósendur hugsuðu málið af skynsemi - og sögðu JÁ! Þeir vissu sem var að engin töluleg úttekt sýnir annað en að öðrum kosti sigla ríkissjóður og velferðarkerfið í strand. Að halda öðru fram er heimska, og blinda á þann raunveruleika að Sjálfstæðisflokkurinn gaf út falska skattalækkunartékka í mörg ár. Einföld Keynísk hagfræði vék fyrir blindum blautdraumi um að Ísland væri ríkasta land í heimi.

Skandinavíska stjórnin fékk algjört umboð til að ráðast í veigamiklar umbætur á íslensku þjóðfélagi. Vilji kjósenda til að sækja í átt að hinu Skandinavísku módeli er algjör og óumdeilanlegur. Ef til vill hefur Skandinavíska stjórnin ekki verið eins hröð til verka og nauðsyn er á. Nú sést hins vegar að hjarta stjórnarinnar er byrjað að slá örar, og ég vill sjá að skattahækkunarfrumvarpið verði keyrt í gegnum þingið af miklum hraða, hörku og festu. Það á ekki að leyfa blautdraumafólki að málþæfa mikilvæg mál, og sjá flís í augum annarra verandi með bjálka í sínum eigin.

Það á ekki að líða útgerðum landsins lengur að fá niðurgreiðslu á launum sjómanna með "sérstökum" skattaafslætti. Þvílíkar höfðingsgjafir verður að afnema. Sjómannaskatt á að afnema hið fyrsta, og setja þá skyldu á útgerðarmenn að hækka laun sjómanna um sömu krónutölu og ríkið hefur greitt með þeim til þessa.

föstudagur, 9. október 2009

Bókmenntaverðlaun Nóbels

Er með hugmynd að frábærri skáldsögu. Spurning hvort ég fái þá ekki bókmenntaverðlaun Nóbels.

Svona rétt eins og Oboma fékk verðlaun fyrir að framkvæma hugsanlega eitthvað síðar.

þriðjudagur, 29. september 2009

Allt fyrir umhverfið?

Í upphafi skyldi endinn skoða.

Talsvert hefur verið rætt í fjölmiðlum undanfarið um kosti umhverfisvænna orkugjafa fyrir ökutæki, þá helst Metan-gas og Rafmagn. Verðdæmi sýna ótvírætt að umhverfisvænu orkugjafarnir eru ódýrari, og spara gjaldeyri. Krafa hefur t.a.m. verið sett fram um að fella niður innflutningsskatta af rafmagnsbílum.

Gott og vel, gerum ráð fyrir að raf- og metanknúnar bifreiðar komist í almenna notkun. Gerum ráð fyrir að 30% bifreiða á Íslandi verði knúnar þessum orkugjöfum innan tíu ára. Þá stöndum við væntanlega frammi fyrir ákveðnu vandamáli - og það er: Hver borgar fyrir viðhald, endurnýjun og nýframkvæmdir á vegum landsins? Verða það ökumenn dísil og bensínbíla sem borga brúsann? Er það sanngjarnt? Við vitum jú að umhverfisvænar bifreiðar þurfa jafn mikið á góðum vegum að halda. Munu metan- og rafknúnar bifreiðar aka um á vegum landsins á kostnað "mengandi" þegna landsins sem greiða um 60% af hverjum eldsneytislítra til ríkisins.

Það væri ágætt ef strax í byrjun verði sett fram áætlun frá fjármála-, samgöngu- og umhverfisráðuneytinu um hvernig gjaldtöku "vegaskatts" verður háttað af umhverfisvænum bifreiðum í framtíðinni. Mun gjaldtakan fara stighækkandi eftir því sem umhverfisvænum bifreiðum fjölgar? Verður gjaldtaka setta strax á? Verður hún áfram engin? Hvert er planið? Væri ekki gott að eiga plan? Hvernig verður gjaldtaka þungaskatts af rafmagni útfærð?

Gleymdum að sækja um ÓL 2016

Tel það vera mistök hjá ÍSÍ og ríkisstjórninni að sækja ekki um Ólympíuleikana árið 2016. Hægt hefði verið að keppa íslenskri glímu í kynningarskyni. Algjör synd að missa af þessu tækifæri.... :) Kannski við hefðum munað eftir að sækja um ef Icesave málið hefði verið leyst.

laugardagur, 26. september 2009

Fávitans spítalabygging

Ég veit ekki hvernig það á standast nokkur rök að byggja eða stækka Landsspítalann fyrir 50 milljarða króna. (skv. kvöldfréttum RÚV) Á sama tíma og starfsfólki mun fækka við spítalann, rekstur hans smækka og laun starfsfólks lækka. Þegar byggingin verður tilbúin mun stofnunin vart hafa efni á að flytja í húsnæðið.

50 milljarðana mætti nota til að auka framleiðslu á Íslandi. Með vel útfærði fjárfestingu mætti auka útflutningsverðmæti þjóðarinnar um 4-6%. Að blása út ríkisreikninginn eins og gert hefur verið undanfarin 20 ár, er ekki eitt bráðaverkefnum ríkisstjórnarinnar. 50 milljarðar er ansi hreint mikið í lagt fyrir eitt stykki sjúkrahús. Enginn bráðavandi stafar að spítalanum. Ég held að AGS ætti að stoppa þetta! Ef það er rétt að þeir stjórni landinu.

Fávitans framkvæmd! Fé til framkvæmda á að nota til einhvers sem eykur hagvöxt, en ekki til útblásturs á heilbrigðiskerfinu sem þykir þegar of kostnaðarsamt! Djö...!

föstudagur, 25. september 2009

Besti kunningjinn lifir af

Íslensk þrotabú, slitanefndir og skilanefndi eru eins konar viðbjóður.
Allt mögulegt er til sölu á Íslandi í dag. Verslunarlagerar, byggingarefni, bifreiðar, framleiðsluvélar, verkfæri, atvinnutæki, fasteignir, fyrirtæki, verðbréf og svo mætti lengi telja. Góssið sem selt er á spottprísum er hvergi auglýst. Engar verklagsreglur eru til um hvernig staðið skuli að sölu góssins. Aðeins yfirlýsingar um að allt skuli vera gagnsætt. Ekkert annað. Hafir þú áhuga á að versla kreppugóss, þá er einungis eitt sem getur hjálpað þér - að þekkja mann sem þekkir mann. Ekkert annað. Á Íslandi gildir ekki reglan "survival of the fittest" í viðskiptum - heldur hin séríslenska regla: "besti kunningjinn lifir af".

Hvenær fáum við að sjá lista yfir fasteignir í eigu Gamla eða Nýja Landsbankans, Gamla eða Nýja Kaupþings og Nýja eða Gamla Glitnis - sem eru og verða til sölu? Eða hefur það truflandi áhrif á kunningjasamfélagið?

Hvenær verða settar verklagsreglur fyrir skiptastjóra og slitastjórnir um hvernig beri að standa að auglýsingum á sölumunum þrotabúa? Þyrfti alþingi að setja lög um að slíkar sölur á munum verði að auglýsa í miðlægum gagnagrunni þrotabúa? Myndi það kannski hafa truflandi áhrif á kunningjasamfélagið?

Væri það of gagnsætt?

fimmtudagur, 24. september 2009

Berjalaust í Hádegismóum

Ég hef í nokkra daga velt því fyrir mér hvort ég hafi yfir höfuð einhverja skoðun á því hvort Davíð sé rétti ritstjóri Morgunblaðsins. Hef hugsað málið útfrá nokkrum sjónarhólum, og í raun komist að því mér finnst ráðningin skemmtilegt krydd í tilveruna.

Morgunblaðið er í raun ekki opinber stofnun, heldur eitt sterkasta vörumerki þjóðarinnar í eigu Árvakurs. Gallinn við fyrirtækið er að það hefur vaxið sjálfu sér til höfuðs í krafti offjárfestinga og metnaðarfulls mannahalds. Fyrirtækið gekk til að mynda ekki í gegnum þann hreinsunareld hagræðingar og uppstokkunar sem nauðsynleg var með nýjum eigendum eftir hrun. Að nýta ekki tækifærið á þeim tímapunkti til hagræðingar er hægt að segja hafi verið með afbrigðum slæm rekstrarmistök hjá útgefanda blaðsins. Ljóst var á þeim tímapunkti að skera þyrfti niður kostnað svo um munaði, það var einungis gert í smáum skömmtum. Mun færri seldar auglýsingar og fækkun áskrifenda í kjölfar efnahagserfiðleika áttu að klingja bjöllum hjá nýjum eigendum - strax áður en þeir ráðgerðu að kaupa fjölmiðilinn. Því má segja að óumflýjanlegum niðurskurði á "skrímslinu" hafi verið frestað. Tilfinningar eru skilst mér afar óæskileg breyta við rekstrarlegar uppstokkanir. Tánni verður að fórna fyrir búkinn. Því er ver og miður.

Nú þekki ég ekki persónulega hvernig pólitík, mannleg gildi, persónuleg geta, ritsnilli, viðvera, launastrúktor og fleira spiluðu inn í uppsagnir dagsins. Hitt vitum við þó öll; uppsagnir hljóta að hafa verið óumfýjanlegar í berjalausum Hádegismóum. Því miður get ég ekki greint á milli sannleikskorna og gremju hjá formanni blaðamannafélagsins sem svo sviplega var sagt upp í dag. Mér kemur þó vart í hug að svipuð viðbrögð hefði hún haft í frammi við sambærilegt atvik hjá öðrum fjölmiðli, t.a.m. Fréttablaðinu - eða bara hjá Kompási.

Trúverðugleiki Morgunblaðsins frá deginum í dag er eitt af því sem samkeppnisaðilinn vill tala niður. Trúverðugleiki er eitthvað sem þú ávinnur þér, með vönduðum, öguðum og réttum fréttaflutningi. Tíminn einn getur leitt í ljós hver trúverðugleiki Morgunblaðsins verður að nokkrum mánuðum liðnum. Fréttastofa Stöðvar 2 í eigu Jóns Ásgeirs, Fréttablaðið í eigu Jóns Ásgeirs, Vísir.is í eigu Jóns Ásgeirs og DV í eigu pilsfaldsins - hversu trúverðugt er það? Þessir fjölmiðlar eru frjálsir, og þangað eru ráðnir já-bræður eigendanna að sjálfsögðu. Hví skildum við ekki gefa Morgunblaðinu tækifæri til að vera frjálst um sinn? Og sjáum hvert viðskiptaleg ákvörðun fyrrverandi forstjóra Tryggingamiðstöðvarinnar og samverkamanns Jóns Ásgeirs leiðir fjölmiðilinn.

Það er rétt að pólitísk tengsl Morgunblaðsins við harðann kjarna í Sjálfstæðiflokknum eru augljós. Þau hafa ekki verið jafn augljós í svosum eins og eitt ár - eða síðan Styrmir Gunnarsson var innmúraður ritstjóri um áraraðir. Nú hefur múrarameistarinn sjálfur einfaldlega tekið við stólnum. Sé í raun engan mun á því skoðanalega hvort Styrmir eða Davíð ritstýri blaðinu. Kjallaragreinar og leiðarar verða að vísu skemmtilegri. Hitt veit ég þó að stór hluti lesenda mun áfram lesa fólk í fréttum, íþróttir og fleira skemmtilegt efni sem birst hefur í mogganum til þessa. Veit líka að Evrópusambandssinnum fjölgaði ekki meðan Morgunblaðið hafði ritstjóra sem vildi stefna þangað rétt eins og ég. Áskrifendur hafa jú frelsi til að segja upp blaðinu, og væri þá um að ræða afleiðingar viðskiptalegrar ákvörðunar stjórnar Árvakurs.

Áhyggjuefni er að sjálfsögðu að blaðamenn búa við afar slakt atvinnuöryggi. Ég votta þeim sem misstu störf sín samúð mína. Ég veit af eigin reynslu hversu sárt er að horfa á eftir starfi sem unnið er fórnfýsi. Formaður blaðamannafélagsins og stjórn þess hefur ærin verkefni að vinnu næstu misseri. Helsta verkefnið að sjálfsögðu að bæta kjör blaðamanna upp til hópa. Ísland er eitt af fáum lýðræðisríkjum þar sem blaðamenn ná vart launakjörum millistéttarinnar. Í ljósi reynslu síðustu ára verður blaðamannafélagið að einbeita sér markvisst að því að auka réttindi stéttarinnar við uppsögn. Lengja verður uppsagnarfrest í ljósi reynslunnar, en þó ekki gagnkvæmt. Það má ekki vera ódýrt að segja upp blaðamanni á oft annarlegum forsendum. Að auki þyrfti blaðamannafélagið að taka þátt í upplýstara þjóðfélagi og upplýsa opinberlega á heimasíðu sinni um flokkstengsl, kunningjahóp, fjölskyldutengsl, bakgrunn og hlutabréfaeign félagsmanna. Ljóst er að blaðamannastéttin er rúin trausti, og það nánast á öllum fjölmiðlum. Formaður blaðamannafélagsins á EKKI að hafa skoðun á því hver er ritstjóri prentmiðla.

Að þessu sögðu er ég í heildina ánægður með það að Davíð Oddsson skuli vera orðinn ritstjóri Morgunblaðsins. Sérstaklega held ég að skemmtanagildið verði á háu stigi þegar kastað verður steinum úr glerhúsum Fréttablaðsins og Morgunblaðsins á víxl næstu mánuðina. Merkilegast við þessa stöðu er að tveir stærstu prentmiðlar landsins sem báðir ramba á barmi gjaldþrots, munu heyja baráttu á næstu mánuðum upp á líf og dauða, viðskiptalega - og alveg pottþétt persónulega. Þegar annar hvor eða báðir þessir prentmiðlar deyja drottni sínum, mun öngvum koma það neitt sérstaklega á óvart.

miðvikudagur, 23. september 2009

Fiskveiðiverktaka

Mætti ég kynna til leiks nýtt hugtak: FISKVEIÐIVERKTAKA

Lagabreytingar á löggjöf um stjórn fiskveiða væri auðveldlega hægt að framkvæma á haustþingi. Hægt væri með smávægilegum viðauka að úthluta aflaheimildum í tilraunaskyni á t.d. 30.000 tonnum af þorski til Ríkiskaupa. Úthlutunin gæti til frekari réttlætingar kallast aukaúthlutun til gjaldeyrisöflunar.

Ríkiskaup sæi svo um útboð til fiskveiðiverktaka sem gæfist kostur á að bjóða í verkið. Fiskveiðiverktakar gætu svo ráðstafað aflanum að eigin vild. Líklegast má telja fiskveiðiverktakar myndu vilja greiða fé fyrir að vinna verkið. Það fé mætti kalla sanngjarna auðlindarentu með verðmyndun á frjálsum markaði. Hægt væri að bjóða fiskveiðiverkin út í 1.000, 2.000 og 3.000 tonna skömmtum, til að byrja með og í tilraunaskyni.

Á komandi árum mætti svo setja reglu í lögin um ákveðna aflahlutdeild Ríkiskaupa sem færi stighækkandi á ákveðnum árafjölda, þar til hún er 100%. Einnig gæti komið fram í lögunum að samningar um fiskveiðiverktöku skuli vara í ákveðin tímabil, t.a.m. 1ár, 3ár, 5ár, 7ár og 10ár. Þannig gætu þeir fiskveiðiverktakar sem stunda hagkvæmustu veiðarnar boðið besta verðið per kíló í auðlindarentu. Þannig gætu fiskveiðiverktakar hlotið fyrirgreiðslu hjá lánastofnunum út á fiskveiðiverktökusamningana, sé rekstraráætlun ásættanleg. Þannig gætu fiskveiðiverktakar aukið eða minnkað við sig heimildir milli ára. Einnig mætti hugsa sér fiskveiðiverktökusamninga á fleiri fiskitegundum en þorski. Á uppsjávartegundum mætti síðar hugsa sér gagnvirkt og sjálfvirkt uppboðskerfi, sem yrði of gallað og flókið að útskýra hér.

Kannski of sanngjarnt og of gagnsætt?

mánudagur, 7. september 2009

Tryggvi og Teitur

Eitthvert fyndnasta blogg sem ég hef lesið er birt á bloggsíðu Tryggva Þórs Herbertssonar, alþingismanns Norðeystlendinga.

Hann kvartar semsagt sáran undan hæðnum setningum Teits Atlasonar um Sjálfstæðisflokkinn og sjálfan sig.

- Rosalega er erfitt að vera til Tryggvi.

Tryggvi Þór veit ekki að í hvert skipti sem greinar eftir hann birtast á blogginu og í mogganum kvelur hann þúsundir lesenda með lesblindu sinni á raunveruleikann. En við leyfum Tryggva að njóta vafans, það er kallað ritfrelsi.

- Og þegar maður er með eigin bloggsíðu, þá er maður sjálfur ritstjóri. Teitur er því ritstjóri á eigin síðu.

Tryggvi er að skrifa röngum manni.

fimmtudagur, 30. júlí 2009

Að vera drukkinn, eða sagður drukkinn

Valur Grettisson skrifar frétt á Vísi í dag.

Í fyrirsögn segir: "Sakar drukkinn blaðamann um hótanir"

Ókei. Röng fyrirsögn. Tilviljun? Hið rétta er að Jón Ásgeir sakar blaðamann um að hafa verið drukkinn og með hótanir.

Í fréttinni sjálfri er svo ítrekað skrifað "drukkni blaðamaðurinn", af hverju skrifar Valur ekki "blaðamaðurinn".

Það er mikill munur á því að vera drukkinn blaðamaður, eða blaðamaður sem Jón Ásgeir sakar um að hafa verið drukkinn. En Valur fleygir þessu fram sem staðreynd að blaðamaðurinn hafi verið drukkinn, aðeins sé spurning um hvort hann hótaði JÁJ. Þannig er helmingur af áburðinum gerður sannur í fréttinni, þrátt fyrir að svo gæti verið að öll fréttin sé hugarburður.

Þannig að samkvæmt textanum þá fullyrða Vísir.is, Valur Grettisson og Jón Ásgeir að ónefndi blaðamaður hafi verið drukkinn. Voru einhverjir fleiri drukknir þegar yfirlýsing gærdagsins var send út? Eða frétt dagsins skrifuð?

fimmtudagur, 23. júlí 2009

Sænsk fljóð og einfeldingur

Á litlu hestaleiguna komu nokkrar sænskar háskólastúlkur sem ég sótti einn míns liðs í Hótel Valaskjálf á japönskum pallbíl. Á móti þeim tók kona mín sem fór með þær í ógleymanlegan útreiðatúr um sléttur Vallaness. Kona mín minntist á það síðar sama kvöld við mig að ekki hefði komið nægilega vel fram að ég væri maðurinn hennar, og hún væri konan mín. Ég spurði strax óhjákvæmilegrar spurningar: "Af hverju?". Svarið kom mér ánægjulega á óvart. "Þær töluðu ekki um annað í reiðtúrnum en hvað bílstjórinn [ég] væri sætur." svaraði mín heittelskaða.
Að sjálfsögðu ljómaði bros mitt til tunglsins í kjölfar þessara tíðinda. Greinilegt að íslenski sveitastrákurinn í lopapeysunni hafði smá karma eftir allt saman.

Svo ánægður var ég með þessi tíðindi, að ég sagði kollega mínum frá þessu strax morguninn, um leið og heppilegt tækifæri bauðst. Hann hlustaði á mig glottandi og sagði svo: "Það er naumast að konan þín kann að láta þér líða vel, hún þekkir þig greinilega betur en þú heldur." Við þetta komment vöknuðu upp ýmsar spurningar. Hafði konan mín sagt mér falska sögu til þess eins að láta einfeldningnum líða vel? Fannst kolleganum ekki geta komið til greina að sænska píur líti mig girndaraugum?

Í gærkvöldi spurði ég svo konu mína hvort hún hefði ekki örugglega sagt satt og rétt frá áliti sænsku fljóðanna. Ég fékk ekkert svar.

fimmtudagur, 7. maí 2009

Ég er IMF-borgari

Maður segir ekki annað en "...andskotinn bara." við þessari frétt.

IMF semur um hversu langan tíma tekur fyrir Íslendinga að greiða skuldbindingar vegna Icesave. Greinilegt við erum ekki lengur borgarar sjálfstæðs ríkis.

...og fokkings nýlenduherrarnir í Bretlandi gera það sem þeir kunna best, að kúga saklausa.


____________

....og svo eru stýrivextir á Íslandi ekki nema ca. 818% hærri en í Danmörku.

____________

...gat loks keypt mér dósaupptakara á Egilsstöðum eftir 3 mánaða skort á slíkum verkfærum hér í bæ. Fékkst hjá farandsölu á ódýrum verkfærum í félagsheimilinu. !Alvöru sveitó!

miðvikudagur, 6. maí 2009

Allt álverinu að þakka...*

Þær ágætu fréttir eru sagðar hér hjá mbl.is að afgangur er á vöruskiptum við útlönd í apríl, skv. heimildum hagstofunnar.

Samtals nemur útflutningur 31,7 milljarði og innflutningur 29,4 milljörðum á svokölluðu fob (free on board) verði.

Segjum sem svo að þær tölulegu upplýsingar frá opinberum aðilum séu réttar að álver Alcoa í Reyðarfirði standi undir 20% af útflutningstekjum þjóðarinnar. Þá liggur í augum uppi að ef ekki væri fyrir álverið í Reyðarfirði væri vöruskiptajöfnuðurinn í apríl neikvæður. Samkvæmt þessum tölum er útflutningsverðmæti úr Reyðaráli 6,34 milljarðar, og væru þeir dregnir frá útflutningsverðmæti kæmi í ljós að vöruskiptajöfnuður fyrir apríl væri neikvæður um 4,04 milljarða.

Værum við þá ekki í dýpri skít án álversins?

*Geri mér grein fyrir að sjónarhornið er þröngt, eins og þeirra sem segja álverinu allt um að KENNA.

þriðjudagur, 5. maí 2009

Is it true? Is it over?


IS IT TRUE?
You say you really know me,
You're not afraid to show me
what is in your eyes
So tell me about the rumors
Are they only rumors?
Are they only lies?
Falling out of a perfect dream,
coming out of the blue.
Is it true?
Is it over?
Did I throw it away?
Was it you?
Did you tell me you would
never leave me this way?
If you really knew me
You couldn't do this to me
You would be my friend
If one of us is lying
There's no use in trying
No need to pretend
Falling out of a perfect dream,
coming out of the blue
Is it true?
Is it over?
Did I throw it away?
Was it you?
Did you tell me you would
never leave me this way?
Is it real ?
Did I dream it ?
Will I wake from this pain
Is it true?
Is it over?
Baby did I throw it away?

mánudagur, 4. maí 2009

Borga? Vinna?

Umræðan í útvarpi og sjónvarpi í dag snerist sumpart um hvort rétt væri fyrir skuldsettar fjölskyldur að hætta að borga af lánum sínum. Sitt sýnist hverjum, en líklegast er flestir á þeirri skoðun að fólki beri að borga meðan það getur.

Gylfi Magnússon hefur ekki átt sína bestu spretti í svörum sínum um þetta málefni. Í hádegisfréttum útvarps í gær sagði hann ca. þetta: "Það hefur aðeins aukinn lögfræðikostnað í för með sér fyrir skuldara. Þetta er því aðeins atvinnuskapandi fyrir lögfræðinga."
Í Kastljósi í kvöld sagði hann ca. þetta: "Það þýðir ekki að loka sig inni, hætta leita sér að vinnu og hætta að borga."

...auðvitað sýndi hann þeim sem eiga um "sárt að binda" mikinn skilning. En að segja fólki að fara að leita sér að vinnu, er eins og að segja fólki að fara og týna ber á Vatnajökli.

....það vita allir að þar eru enginn ber.

fimmtudagur, 30. apríl 2009

1. maí áminningin

1. maí 2009 er í mínum huga áminning um hversu gagnslaus verkalýðshreyfingin á Íslandi er orðin. Starf verkalýðsleiðtoga og starfsmanna snýst að mestu leyti um að halda utan um sjóði. Þá erum við að tala um orlofshúsasjóði, sjúkrasjóði, veikindasjóði, verkfellssjóði, framkvæmdasjóði, lífeyrissjóði og svo mætti lengi telja. Hjá verkalýðsfélögunum starfar sárafátt hugsjóna- og baráttufólk sem vinnur að hagsmunum launþega. Þannig hefur þróunin einfaldlega verið. Frekar mætti segja að hjá verkalýðsfélögunum starfi fólk sem hefur það í verklýsingu sinni að halda utan um gríðarmikið inn- og útstreymi fjármuna sem dregnir eru af launum fólks sjálfkrafa allt árið.

Verkalýðsforingjar hafa svo flestir hverjir afsalað sér samningsrétti og jafnvel mótmælarétti gagnvart samtökum atvinnurekenda. Afsalað sér samningsrétti til ASÍ sem hefur það alls ekki á stefnuskránni að ná fram launa- eða kjarahækkunum, heldur öllu frekar hefur ASÍ gefið það út að laun beri að lækka eftir mesta verðbólguskot síðari ára - og stefna að aðild að Evrópusambandinu.

Auðvitað get ég verið sammála því að Evrópusambandið er gott mál. En ég lýsi frati í þá hreyfingu sem á að vinna algjörlega ópólítískt að því markmiði að hækka kjör félagsmanna sinna, en ekki afsala sér samningsbundnum launahækkunum.

Ég verð því að segja sem er að verkalýðsforystan er algjörlega stöðnuð, óheilbrigð og hefur fjarlægst upphafleg markmið sín nánast að fullu. Aðalhlutverk verkalýðsfélaga getur varla verið að plástra heilbrigðiskerfið með styrkjum og eiga sem mest af fasteignum....

1. maí er því þörf áminning til verkafólks í landinu - sem ætti alls ekki að klappa lófum saman undir yfirborguðum ræðum verkalýðsforingja á morgun.

og hana nú.

miðvikudagur, 29. apríl 2009

Kaupin á eyrinni

Í smærri auglýsingunum í Fréttablaðinu auglýsir maður að nafni Sverrir að fyrirtæki hans hafi áhuga á að kaupa Evrur. Símanúmer mannsins fylgdi með.

Forvitni mín og annarra sem nálægt mér sátu við lestur Fréttablaðsins, rak mig til að taka upp símann og afla upplýsinga. Sverrir kveðst vilja kaupa Evrur, séu þær lagðar inn á þýskan bankareikning. Í dag gat hann boðið kr. 185 fyrir Evruna, sem er talsvert yfir skráðu gengi, eða u.þ.b. 9%. Hann kvaðst myndu leggja fjármunina inn á íslenskan bankareikning í íslenskum krónum.

Augljóslega gæti maðurinn verið í viðskiptum fyrir þriðja aðila sem á krónur á Íslandi og vill eignast Evrur í Evrópu í staðinn. Gæti verið um þýska banka að ræða? Eða stóra erlenda aðila sem komast ekki úr landi með peninga nema með þessum hætti? Varla er peningaþvottur auglýstur svo augljóslega á síðum Fréttablaðsins?

Hversu löglegt eða ólöglegt væri að taka þátt í slíkum viðskiptum?

þriðjudagur, 28. apríl 2009

Gamla verðið á smábátum

Í dag heyrði ég tvö ný hugtök sem tengjast fyrirætlunum Steingríms Joð um frjálsar handfæraveiðar, þ.e. :

"Nýja verðið á bátum." og "Gamla leiguverðið á kvóta." 

Þessi nýju hugtök útskýrði stoltur smábátasjómaður fyrir mér.

Greinilegt að menn eru farnir að undirbúa sig í landsins "krummaskuðum" að hala inn þann gula með berum höndum í sumar. Og sumir búnir að fjárfesta þannig að eins gott er fyrir Steingríminn að standa við sinn hluta af samkomulaginu.

Í snertingu við svínaflensuna

Solla samstarfskona mín knúsaði mig í morgun. Það var notalegt.

....alveg þangað til hún tilkynnti mér alveg nú nýverið að hún hefði knúsað hana Nínu í kaupfélaginu, sem kom víst frá Mexíkó í gær eða fyrradag.

Hélt ég væri svo einangraður hér úti á landi... krossa nú fingur um leið og ég vona að heimkoma Nínu hafi ekki í för með sér svínaflensufaraldur á Fljótsdalshéraði.

mánudagur, 27. apríl 2009

Valdamesta ríkisstjórn Íslandssögunnar

Hvað sem öðru líður um úrslit kosninga er eitt atriði nokkuð ljóst í mínum huga.

Sú ríkisstjórn sem mynduð verður á næstu dögum verður líklegast valdamesta ríkisstjórn allra tíma í Íslandssögunni.

Ríkisvaldið mun fara með mörg af mikilvægustu og stærstu fyrirtækjum landsins, og mun jafnframt ráða því bæði beint og óbeint hvaða fyrirtæki verpa tekin yfir, hvaða fyrirtæki eru látin rúlla, hvaða fyrirtæki eru seld áfram með afsláttum, til hverra og svo framvegis. Það verður jafnframt á valdi ríkisstjórnarinnar hvaða vinnureglum verði beitt í þessum málum, hverjir fylgja eftir vinnureglunum og hversu mikil pólitísk slagsíða mun verða við ákvörðunartökur.

Ríkisstjórnin mun jafnframt taka stærstu ákvarðanir sem teknar hafa verið um niðurskurð til velferðarmála, og ræður því í aðalatriðum hversu Ísland verður mikið velferðarþjóðfélag að nokkrum misserum eða árum liðnum. Í sömu andrá verður að nefna stórar ákvarðanir í skattamálum sem verður að taka á næstu vikum.

Ríkisstjórnin þarf ennfremur að taka ákvarðanir um umsókn eða ekki umsókn í Evrópusambandið. Þar er enn önnur stór ákvörðun sem þarf að taka sem varðar sögu þjóðarinnar til lengri tíma.

Ríkisstjórnin sem nú verður mynduð hefur óskorað umboð kjósenda til að gjörbylta umgjörð um úthlutun aflaheimilda til framtíðar. Þannig vilja kjósendur að ríkisstjórnin geri grundvallarbreytingar á einni af þremur mikilvægustu atvinnugreinum þjóðarinnar.

Ríkisstjórnin mun þurfa að endurmóta frá grunni umgjörð og regluverk fjármálastarfsemi í landinu. Þar má nefna bankastarfsemi, eftirlitsaðila, neytendavernd og afnám eða ekki afnám verðtryggingarinnar.

Að síðustu verð ég að nefna að ríkisstjórnin hefur víðtækt umboð til aðgerða til hjálpar heimilunum í landinu. Þingmeirihluti vinstri-manna gefur til kynna að kjósendur vilji róttækar aðgerðir. Ríkisstjórnin hefur því víðtækt vald, með fullu samþykki þjóðarinnar til stærri og mikilvægari aðgerða en nokkru sinni fyrr.

Að þessu sögðu er augljóst að næsta ríkisstjórn sækir sér eitthvert víðtækasta umboð til breytinga, ákvarðana og verknaða sem nokkur íslensk ríkisstjórn hefur haft undir höndum áður. Því er mikilvægt að við upphaf vegferðarinnar verði skrifaður skýr, afdráttarlaus og heiðarlegur stjórnarsáttmáli. Þar sem við fáum að vita nokkuð nákvæmlega, hvort, hvenær og hvers vegna verður ráðist í breytingar sem varða hag okkar allra.

þriðjudagur, 21. apríl 2009

Í bið

Undanfarin tvö misseri hafa verið skrítin. Margir sem ég þekki hafa verið að BÍÐA. BIÐIN byrjaði við fall bankana. Þá var BEÐIÐ eftir næsta fréttamannafundi sama dag.

Smám saman breyttist BIÐIN, og flestir fóru að BÍÐA eftir vikulegum fréttamannafundi. Þar sem líklega yrði tilkynnt um aðgerðir.

Svo skapaðist sátt um að BÍÐA "róleg" yfir jólin. Eftir jólaBIÐ yrði búið að kokka saman töfralausn. JólaBIÐIN var hvað lengsta BIÐIN fram að þeim tíma. Að loknum jólum trylltust margir, því BIÐIN hafði engu skilað.

Svo varð sátt um að ný ríkisstjórn vinstri flokka og framsóknar fengi BIÐtíma til að koma lausnum sínum í framkvæmd. Og enn um sinn urðu allir sem ég þekki fyrir vonbrigðum - þrátt fyrir nokkra BIÐ kom engin töfralausn.

Nú BÍÐA allir sem ég þekki eftir kosningum. Að loknum kosningum verði mynduð svo öflug ríkisstjórn að hún hljóti að verða með töframátt. Svo öflugur er máttur BIÐARINNAR telja margir.

Ég les hins vegar úr þessari tveggja missera BIÐ að töfralausnin er ekki til. Allar okkar lausnir og leiðir hljóta að byggjast á þrotlausri vinnu, áræðni og útsjónasemi - og ekkert af þessu þrennu er kastað fram úr erminni.

Það verður víst að byggja hið nýja Ísland upp í rólegheitum, því það gæti nú verið að nýjar töfralausnir kölluðu á nýjar bólur. Mér finnst bara ágætt að BÍÐA meðan að gömul graftarkýli eru kreist...... eða svoleiðis.... aðeins þannig hljótum við að horfa fram á bólulaust andlit....??

föstudagur, 17. apríl 2009

Að ríða á kjörstað....

Bíð eftir að grasið byrji að grænka - það er minn uppáhaldstími, ég elska að gefa hestunum græna grasnál í fyrsta sinn á vorin. Það fer að koma sá dagur, en kannski ekki alveg strax hér fyrir austan.

Er að spá í að fara ríðandi á kjörstað.....!!? Gæti verið soldið kúl?? Lopapeysa og íslenskir gæðingar og gagnslaust atkvæði - eitthvað íslenskara en það?! Einhver með í hópreið á kjörstað?

miðvikudagur, 15. apríl 2009

Skort-hugsun

Sjálfstæðiflokkurinn hefur tekið í notkun orð eða hugtak í kosningabaráttunni og tengt það við úthlutun aflaheimilda. "ATVINNURÉTTINDI" er orðið sem þeir tönnlast á.

Einhverra hluta vegna telja stuðningsmenn frelsis til athafna, að hugtakið "atvinnuréttindi" hafi eitthvað með fiskinn í sjónum að gera.

Eigir þú bát vilja Sjálfstæðismenn að þú eigir þau einkaréttindi að veiða fisk úr sjó.

Eigir þú byggingakrana vilja Sjálfstæðismenn að aðrar reglur gildi!

Að veiða fisk, er ekkert öðruvísi en önnur verk sem þarf að framkvæma. Þeir sem hafa þekkingu til að veiða fisk, skipstjórar, stýrimenn, vélstjórar og sjómenn hafa sín ATVINNURÉTTINDI og þekkingu sem ekki verður tekin frá þeim. Að mixa atvinnuréttindum inn í umræðu um EIGNARRÉTT á auðlindum er fáránlegasta rökvilla kosningabaráttunar.... og undarlegt að ekki nokkur frambjóðandi FRELSINS skuli hafa gert sér grein fyrir þessari heimsku í sínum herbúðum.

...og undarlegt að ekki nokkur mótframbjóðandi skuli hafa bent á þennan skort á hugsun.

...og ennþá hefur enginn rökstudd efnislega hvernig "SJÁVARÚTVEGURINN HRYNUR" við breytingar á úthlutun aflaheimilda.... þá er ég að tala um EFNISLEGA.

D-Genetics

Á meðan Sjálfstæðisflokkur missir allt nema sitt genetíska fylgi eru nokkrir dagar í kosningar. Fylgishrun Sjálfstæðisflokksins er þónokkuð merkilegt og hefur afgerandi áhrif á myndun næstu ríkisstjórnar. Fylgi Sjallana virðist hafa færst á Ríkisstjórnarflokkana og á Borgarahreyfinguna í Reykjavík. Þónokkuð merkileg tíðindi, sem virðist ætla að gulltryggja hreina vinstristjórn eftir kosningar.

Eins lítið og mér hugnast hægri stjórn án viðspyrnu frá miðju - hugnast mér alls ekki vinstristjórn án nokkurrar viðspyrnu frá miðju. Og hana-nú.

...svo er spurning hvað gerist þegar í kjörklefana er komið. Ég spurði pabba minn Ben út í málið. Hann svaraði: "Þegar ég fór grautfúll í framboð fyrir Þjóðarflokkinn, þá kaus ég Sjálfstæðisflokkinn. Það var ekki hægt annað." - svona trygg geta atkvæði verið!

_____________________


....og það var eins og ég hugsaði í byrjun: Sjálfstæðismenn áttu að fórna fleiru en dauðri hænu á tröppum Valhallar.

miðvikudagur, 8. apríl 2009

Gylfi! Ekki koma heim

Þess frétt vekur spurningar um orsakatengsl.

Ég man þá ljóslifandi er það gerðist að meistara Geir H. Haarde lokaði Nasdaq markaðnum með því að hringja kúabjöllum - þá er Haarde kom heim nokkrum dögum síðar, þá hrundi íslensk fjármálastarfsemi til grunna, og jafnvel niður fyrir sjávarmál.

Nú þáði hinn geðþekki ráðherra Gylfi Magnússon áþekkt boð, og hringdi sömu kúbjöllu og Haarde. Og þá er spurning hvað gerist þegar Gylfi kemur heim? Hvað hrynur þá? Hvað ef skyldu vera orsakatengsl?

Ég segi því: "Í þjóðarþágu, Gylfi, ekki koma heim á næstunni. Bara svona til öryggis."

:)

fimmtudagur, 26. mars 2009

Fyrir kosningar 2007

Við erum fjölmargir eftiráspekingarnir í þessu landi. Stundum kemur mér samt á óvart hversu vel er hægt að hitta naglann á höfuðið fyrirfram. Rakst á þennan stutta pistil fyrir tilviljun, sem ég skrifaði í Austurlandið fyrir kosningarnar 2007:

27. apríl 2007.

Hvaða flokkur vill afnám verðtryggingar?
Undanfarið hafa farið fram umræður stjórnmálamanna fyrir komandi kosningar. Málefni eins og umhverfisvernd, staða eldri borgara og öryrkja og velferðarkerfið í heild hafa borið hæst og í raun haft höfuð og herðar yfir önnur mál - eins og þetta séu aðalmálin. Rétt er að þessi mál hafa verið aðalmálin í umræðunni undanfarið kjörtímabil og hafa umhverfisverndarsinnar haft drjúgan tíma fjölmiðla til að kynna sína stefnu hvað eftir annað allt kjörtímabilið, og hafa græningjar haft áhrif til góðs fyrir umhverfið. Auk þess liggur ljóst fyrir að ákveðnar úrbætur standa fyrir dyrum gagnvart eldri borgurum.

Pláss fyrir alvöru kosningamál
Þess vegna vonaðist ég til þess að ný mál yrðu sett á oddinn í kosningunum. Ríkisstjórnarflokkarnir keppast hins vegar við að verja gjörðir sínar undanfarið kjörtímabil, og stjórnarandstaðan hamrar á umhverfismálum sem og einstökum velferðarmálum. Það er mér óskiljanlegt að enginn flokkur geri afnám verðtryggingarinnar að sínu kosningamáli, mál sem hinn almenni neytandi myndi styðja alla leið og gefa atkvæði sitt fyrir. Sá flokkur sem stígur fram fyrstur og lýsir yfir afnámi verðtryggingar myndi að mínu mati ná atkvæðum almennings.
Af hverju skildum við afnema verðtrygginguna?

Afnám verðtryggingar er lykilatriði til þess að hagstjórn litla Íslands komist í réttar skorður. Verðtryggingin baktryggir fjármálstofnanir á borð við Glitni, Kaupthing, Landsbankann, Íbúðalánasjóð og aðrar lánastofnanir á þann hátt að höfuðstóll útlána hækkar alltaf í takt við neysluvísitöluna. Þessi fyrirtæki og stofnanir eru þannig orðin ábyrgðarlaus í efnahagslífinu og þurfa ekki að haga útlánum og fjárfestingum af skynsemi - heldur geta þau hagað sér eins fíflalega og kostur er, og samt haldið áfram að skila methagnaði. Þau útlán sem ekki eru verðtryggð skipta engu máli, því Seðlabankastjóri vor sér um að verðtryggja þau með stöðugri hækkun vaxta á verðbólgutímum. Þeir aðilar sem höndla með meirihluta fjármagns í efnahagskerfinu eru því ábyrgðarlausir með öllu og almenningur borgar brúsann með verðtryggðum lánum og okurvöxtum.

Afnám verðtryggingarinnar ætti því að vera stærsta kosningamál kosningana og myndi stuðla að hvað mestri hagsæld fyrir allan almenning í landinu.

miðvikudagur, 25. mars 2009

Bird whisper

Lítill fugl hvíslaði því að mér að stýrivextir verði lækkaðir um 5% á föstudag.

þriðjudagur, 24. mars 2009

Verðhjöðnunartímabil hafið

Vísitala neysluverð´s fyrir janúarmánuð var 334,8. Fyrir febrúarmánuð var vísitalan 336,5 stig og fyrir marsmánuð 334,5 stig.

Þetta er mikilvæg staðreynd, ennþá hefur ekki mælst verðbólga á þessu ári. Verðhjöðnunarskeið er hafið. Niðurstaðan er hins vegar kynnt á þann veg að verðbólga sé 15%, sem er alveg rétt sé miðað við síðustu tólf mánuði.

Það er einhver fáránlegasta staðreynd í hagstjórnun heimsins að á verðhjöðnunarskeiði hafi verið ákveðið að lækka hæstu stýrivexti heims á Íslandi um 1%. Sé miðað við yfirlýsingar ráðamanna að lækka stýrivexti ört í lægri þrepum - þá ætti að vera ástæða til að lækka um annað prósentustig á morgun, og svo næst á föstudaginn.

mbk
Einar

föstudagur, 20. mars 2009

Að ráðstafa öllu, og eignast ekkert

Þessi frétt um fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar kemur mér alls ekkert á óvart. Í fréttinni kemur reyndar ekki fram að sveitarfélögin Fljótsdalshérað og Fjarðabyggð eru einnig ofurseld fasteignafélaginu Fasteign ehf. og teljast þar góðir og gildir hluthafar.

Þessi sveitarfélög hafa selt sé þá hugmynd að skuldastaða líti mun betur út með leigusamningum við Fasteign, en hafa ráðstafað stórum hluta af rekstrarreikningum sínum í að greiða leigu út fyrirfram ákveðinn leigutíma.

Ég hef verið talsmaður þess að sveitarfélagið Fljótsdalshérað stígi fast til jarðar og reyni að losa sig við hlutafé sitt í félaginu Fasteign ehf. og leysi til sín leikskóla, grunnskóla og knattspyrnuvelli, og eigi þannig og reki sínar fasteignir án þess að þriðji aðili þurfi að koma þar að málum.

Enginn bæjarfulltrúi í sveitarfélaginu, hvorki í meiri- né minnihluta hefur gert athugasemdir við þetta fyrirkomulag sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur innleitt í starsemi hins opinbera. Enginn hefur getað útskýrt fyrir mér í hverju hagkvæmnin liggur. Þ.e.a.s. að sveitarfélagið ráðstafi rektstrarfé árafjöld fram í tímann í langtímaleigusamninga og eignist aldrei nokkurn skapaðan hlut. Hver er hagkæmnin í því? Er það ekki fjárbinding?

miðvikudagur, 18. mars 2009

Afskrifum 23-26,5%

Hef fylgst þokkalega með umræðum svokallaða "20% niðurfellingu húsnæðisskulda" og litist ágætlega á. Ég er svo fylgjandi henni að þverpólitísk samstaða um lausnina væri mér alls ekki á móti skapi. Umræðan hefur þó þróast í skoplega átt. Á kaffistofum þeim sem ég sæki er helst rætt um hvort Tryggvi Þór Herbertsson sé að eigna sér hugmyndir Framsóknarflokksins. Það fór til að mynda í taugarnar á sumum í morgun að Fréttablaðið skyldi fjalla um á forsíðu að "Tryggvi Þór Herbertsson og Framsóknarflokkurinn." hafi kynnt hugmyndir um 20% leiðina.

Málið snýst þó ekki um einkaleyfisrétt á hugmyndinni, heldur pólitískar aðferðir við að stuðla að skárri efnahag heimilana í landinu. Að mínu viti ætti þetta því í raun alls ekki að vera þrætueplið, hver fékk hugmyndina eða hverjir tali fyrir henni.

Ég hefði frekar viljað ræða hvort sé ekki ástæða til að hækka hlutfallið í 23-26,5%. 20 prósentin eru heldur lág fyrir minn smekk.

Helstu athugasemdir hagfræðinga lúta að réttlæti hugsanlegrar flatrar afskriftar. Þeir segja hugmyndina geta kostað ríkið mikið og gæti verið óréttlát. Hlutverk hagfræðinga er hins vegar ekki að fjalla um réttlæti, það er hlutverk stjórnmálamanna. Réttlæti er í rauninni afstætt og ekki sérstaklega kennt í hagfræðigreinum. Hlutverk hagfræðinga er að meta fræðilega áhrif aðferða og ákvarðana á hagkerfið í heild. Fræðilega hefur hugmyndin um "tuttugu prósentin" því ekki verið hrakin. Það er því hlutverk kjósenda og stjórnmálamanna í kosingunum í vor, að meta hvað þykir réttlátt og hvað þykir ranglátt. Hugur margra hagfræðinga gæti því túlkast ranglátur, ef horft er í það að þeir meta réttlæti ríkiskassans hærra en réttlæti fjölskyldubókhaldsins. Þannig tel ég mig hafa fært þokkaleg rök fyrir því að hagfræðingar eigi alls ekki að taka þátt í pólitískri umræðu heldur halda sig við fræðilegar skruddur sem tengjast faginu.

Augljóslega hefðu afskriftirnar jákvæð áhrif á hagkerfið í heild, og býð ég eftir fræðilegum niðurstöðum hagfræðinga ASÍ og atvinnulífsins, sem hafa hingað til verið sérstaklega viljugir að skrifa tíma á útreikninga sína vegna hagfræðilegra úttekta við inngöngu í Evrópusambandið. Nú gæti alþýðuhreyfingin t.a.m. haft tækifæri til að reikna eitthvað út, sem virkilega skiptir máli, í nánustu framtíð.

fimmtudagur, 12. mars 2009

Hrædd?

Er þessi Þórunn Sveinbjarnar orðin hrædd í slagnum? Finnst henni rétt að minnast á hugsanlegar ástæður tapsins fyrirfram?

Læsilegur spjótkastari

Upp hefur komið ágætis umræða um símreikninga. Sigmar nokkur Vilhjálmsson, spjótkastari, fjölmiðlamaður og markaðsstjóri Tals hefur skrifað þónokkuð læsilega grein í Morgunblaðið um verðlag á símaþjónustu.

Ég þekki málið ekki vel og tala yfirleitt ekki mjög lengi í síma, nema við sálufélaga mína. Símreikningurinn minn er því líklegast undir meðallagi um hver mánaðamót. Ég veit hins vegar að GSM sími, ADSL tenging og heimasimi telur talsvert í heimilisbókhaldinu og reyndar óhuggulega mikið.

Bara þess vegna er fáránlegt að TEYMI sé heimilt að eiga tvö símafélög að meirihluta með góða markaðshlutdeild. Það er TAL og Vodafon. Hvað heimska er það? Hvers lags fávitar erum við? Hvaða samkeppniseftirlit í heiminum, utan það íslenska skildi leyfa þetta fyrirkomulag? Hvaða upplýsingar fær Vodafone frá Tali? Og hvaða upplýsingar fær Tal frá Vodafone? Hvurnig í déskotanum á ég að geta treyst þessu TEYMI?

Svo get ég skipt við NOVA sem Björgúlfur á eða við SÍMANN sem Bakkabræður eiga! Það er verið að þrykkja mig í óæðri í hvert einasta sinn sem ég hringi í einhvern - eða einhver hringir í mig. Það er óframkvæmanlegt að hringja á íslenskri grundu án þess að lenda í viðskiptum við BjörgÚlfinn, JónÁsgeirinn eða Lýðinn. Þetta er hægt að kalla lélegan status á viðskiptalegri stöðu minni í símabransanum.

Ég hef þess vegna ákveðið að tala minna í farsíma, tala hraðar og tala meir um meginatriði en aukaatriði. Það gæti sparað mér nokkra tugþúsundi á ársbasis og meiri árangri. Ég prófa að byrja þarna.

miðvikudagur, 11. mars 2009

Chilltime

* Þrátt fyrir að vera ekki frambjóðandi í prófkjöri ætla ég að rita nokkur orð.

Hér á Austurlandi snjóar talsvert. Snjókorn eftir snjókorn svífur saklaust til jarðar. Snjótittlingarnir sveima um í leit að æti. Traktorsgröfur skrapa kantsteina í eltingaleik við snjó sem gæti lokað götum. Héraðsdómur iðar af lífi og nærist á gjaldþrotabeiðnum og innheimtukröfum. Iðnaðarmenn frá Reykjavík éta lambakjöt í söluskálanum. Iðnaðarmenn frá Póllandi éta jógúrt í kaffiskúrnum. Vegheflar, beltagröfur og vörubílar standa í snyrtilegri röð merktir Lýsingu. Og fleiri og fleiri vita hvað það er að "chilla".

mánudagur, 9. mars 2009

Sjalla-prófkjör Norðaustur

* Þrátt fyrir að vera ekki frambjóðandi í prófkjöri ætla ég rita hér nokkra línur:

Þessa dagana eru ýmsir að spá í prófkjör X-D í Norðausturkjördæmi. Síðasta könnun gefur reyndar til kynna að Sjallar eigi sem stendur aðeins einn þingmann vísan í kjördæminu og því mikilvægt fyrir þá að stilla upp "trúverðugum" lista - hvað sem það nú þýðir.

Nokkuð öruggt má telja að Kristján Þór Júlíusson haldi áfram að verma fyrsta sæti listans, þótt hann verði ef til vill ekki lengur fyrsti þingmaður Austurlands. Um annað sætið er þó erfiðara að spá. Þar þykir Tryggvi Þór Herbertsson alls ekki svo slappur en um það sæti heyir hann baráttu við Arnbjörgu Sveinsdóttur þingflokksformann og einnig Soffíu Lárusdóttur forseta bæjarstjórnar á Héraði.

Almennt telja sveitungar mínir að ABBA sé dottinn úr tísku, og jafnvel megi hún teljast heppin ef hún fær ekki sömu útreið og Einar Már Sigurðarson fékk í Samfó prófkjörinu, sem var vægast sagt harkaleg lending fyrir sitjandi þingmann. Nokkuð viðbúið er að Héraðsbúar muni fylkja sér á bakvið sína konu, en frekar ólíklegt verður að teljast að hún sé svo sköruglegur frambjóðandi að hún nái ofar en í 3. sæti í baráttu við Tryggva sem Fjarðamenn segja mér að eigi atkvæðamagn jafnt úr Fjarðabyggð sem Norðurlandi.

Spá mín verður því að vera þessi:

1. Kristján Þór Júlíusson - verður alþingismaður
2. Tryggvi Þór Herbertsson - verður alþingismaður
3. Soffía Lárusdóttir - verður varaþingmaður

Lengri verður spáin ekki að þessu sinni. Og auðvitað verð ég leiðréttur ef hallað er á einhvern frambjóðanda sem ekki er fjallað um hér.

Sko.....

Sko.

Eftir að hafa fylgst ágætlega með "þróun" stjórnmálanna á Íslandi undanfarna mánuði hef ég ákveðnar efasemdir um að nokkur stjórnmálahreyfing muni njóta nokkurs trausts eftir kosningar.

Því miður er það svo að öllum stjórnmálaflokkum er að mistakast sú endurnýjun sem þeim var falið framkvæma í kjölfar falls ríkisstjórnarinnar. Lítilsháttar andlitsbreytingar verður niðurstaðan hvað varðar forystu stjórnmálaflokkanna. Aðeins að litlu leyti hefur fjórflokkurinn sinnt þeirri skyldu sinni við endurnýjun, endurskoðun, stöðumat og sjálfsgagnrýni. Það er viðurkennd staðreynd að aðeins með algjörri sjálfsendurskoðun getur nokkurt félag eða einstaklingur reist sig úr öskustónni.

Hvað hef ég gert rangt?
Hverju þarf ég að breyta í eigin fari?
Hvað ætla ég að gera í framtíðinni?

Þetta eru þrjár lykilspurningar sem ég hefði viljað sá fjórflokkinn fara í gegnum. Fjórflokkurinn virðist þó fremur leitast við að slá sér á brjóst og telja sjálfum sér trú um að hann hafi brugðist rétt við öllum aðstæðum á öllum tímapunktum.

Níðþungt, vafasamt og ólýðræðislegt valdakerfi er hins vegar það sem fjórflokkurinn skilur eftir sig. Þjóðarsátt er um að Alþingi (fjórflokkurinn) hefur brugðist hlutverki sínu og ekki tekið sér þá stöðu sem til var ætlast. Völd þingsins voru framseld eftirlitslaust til framkvæmdavaldsins, og það er bein afleiðing af hinu íslenska fjórflokkakerfi. Við þetta verðum við að horfast í augu við.

Til þess að þarna megi verða breyting á er aðeins tvennt í stöðunni. Að fjórflokkurinn gangi í gegnum massíva sjálfsendurskoðun, eða það sem einfaldara er að fjórflokknum verði riðlað.

Um tíma var ég nokkuð bjartsýnn á að kjósendur flykktust í félagsheimilin og stofnuðu með sér pólitísk samtök sem myndu riðla framkvæmdavaldi fjórflokksins. Sú von mín hefur veikst og er máttlaus þessa dagana. Einnig vonaði ég innilega að stórir stjórnmálaflokkar klofnuðu og stæðu uppi veikari þar sem að þeim væri sótt með sérframboðum úr öllum áttum.

föstudagur, 13. febrúar 2009

Nú er ég fyrrverandi

Gerðist fyrrverandi Framsóknarmaður á fjórða tímanum í dag. Geri mér grein fyrir að líklegast hefur farið fé betra úr flokknum, en þar hef ég kynnst mörgu góðu fólki.

Tók reyndar lengri tíma að skrá mig af margs konar Facebook síðum sem tengjast starfi flokksins, nú hef ég lokið því verkefni.

Hlakka til að taka þátt í skemmtilegu starfi á nýjum vettvangi.

Einar.

miðvikudagur, 11. febrúar 2009

Merki um stöðugleika?

Þetta er áhugaverð færsla hjá honum nafna mínum. Ef við spáum sérstaklega í þingmannatölu Austurlands, þá sækjast þeir allir eftir endurkjöri utan Valgerði Sverrisdóttur.
Staðan í dag virðist svo í Norðaustur-listamálum:

Sjálfstæðisflokkur
Kristján Þór Júlíusson - Sækist einn eftir 1. sæti D-lista.
Arnbjörg Sveinsdóttir - Sækist eftir 2. sæti D-lista.
Ólöf Nordal - Mun að öllum líkindum sækjast eftir 2. til 3. sæti.

Framsókn
Valgerður fer út.
Birkir Jón Jónsson - Sækist eftir 1. sæti B-lista.
Höskuldur Þórhallsson - Sækist líklegast eftir 1. sæti B-lista.
Huld Aðalbjarnardóttir - Sækist líklegast eftir 3. sæti B-lista.

Vinstri grænt
Steingrímur Joð - Sækist eftir því fyrsta.
Þuríður Bachman - vill vera í öðru sæti.
Hlynur Hallsson - vill annað sætið.

Samfylking
Kristján Möller - ætlar í fyrsta
Einar Már Sigurðar - ætlar í annað
Benedikt Sigurðar - gæti viljað í annað
Sigmundur Ernir - vill í annað

Þannig að ef hinir "geysisterku" þingmenn Norðausturlands halda í sætin verður 10% endurnýjun á þingmannaliði kjördæmisins. Það er væntanlega hin "GRÍÐARLEGA" endurnýjun sem við viljum sjá.

Að missa kíló

Skellti mér í heilsabótargöngu síðdegis í gær. Ég gekk í suðurátt á þjóðvegi eitt öruggum og taktföstum skrefum í átt að hesthúsi Stefáns, hvar ég ríð út frá.

Ég hugðist ná mér í aukalega hreyfingu til að reyna að losa nokkur grömm frá kílóunum hundrað og fjórum. Talsverð umferð er á Vallavegi á þessum tíma, þar eð fólk keyrir heim frá vinnu og sumir til tómstunda í sveitinni.

Á þessari göngu minni hitti ég mikið af fólki. Þetta fólk átti allt sama erindi við mig. Það stöðvaði allt bifreiðar sínar, smellti í bakkgír og athugaði hvað hefði eiginlega komið fyrir. Hvort Einsa vantaði far. Það hafði enginn séð mig ganga heilsubótargöngu áður. Töldu líklegra að bíllinn minn hefði bilað, eða að ég hefði dottið af baki einhversstaðar. Enda var ég ákaflega sveitalega til fara, og algjörlega laus við Nikegalla eða

Ég vil nota tækifærið og þakka fjölmörgum velgjörðarmönnum og konum fyrir hugulsemina, um leið og ég staðfesti að næstu daga mun mér bregða fyrir fótgangandi á Vallavegi án þess að hafa lent í slysi.

mánudagur, 9. febrúar 2009

Flösuvandamál Flokksins

Eftir 18 ára "farsæla" valdatíð með milli 30-40% fylgi að jafnaði hefur Flokknum tekist að raða réttum mönnum á rétta staði, á flestum stöðum. Auðvitað hriktir í þegar Flokkurinn uppgötvar að hann hefur misst völdin. Auðvitað finna Flokksmenn til með Flokksmönnum sínum sem verða "fyrir" því að vera færðir til í starfi eða settir út á guð og gaddinn.

Að mörgu leyti hljóta margskonar tilfærslur í mannahaldi að vera skiljanlegar. Ekki vill ríkisstjórnin hafa Flokksmenn sendandi SMS dægrin löng um viðkvæm mál, beint til fjölmiðla eða Flokksmanna í þinginu. Pólítískar Flokksráðningar í æðstu stöður í ráðuneytum hljóta að vera eitt af því fyrsta sem ráðherrar skoða. Nýskipaður ráðherra, sem hefur það efst á stefnuskránni að auka traust, hlýtur að horfa til þess hvort hann/hún treystir þeim starfsmönnum sem þeim er ætlað að vinna í hvað mestri nálægð og trúnaði við.

Að skipta út pólitískt ráðnu Flokksfólki er ekki valdníðsla eða einelti, heldur ófrávíkjanleg skynsemi.

Valdhrokann tekur nokkur ár að hrista af öxlum Flokksins. Þetta er eins og að vera með erfiða flösu, þegar hrist er af öxlum þá er jafnmikil flasa á öxlunum andartaki síðar. Þeir sem hafa átt við flösuvandamál að stríða vita að það getur reynst langvinnt. Að skipta um sjampó er ágætis byrjun, svo getur verið fínt að fara í sturtu, fá ráð frá sérfræðingi, fara í flösumeðferð eða hvað svo sem kann að laga þetta hvimleiða vandamál. Vandamál sem stundum getur varað í fjögur til átta ár.

sunnudagur, 8. febrúar 2009

Rassskoran mín

Ég og betri helmingurinn skelltum okkur á þorrablót Vallamanna, það var haldið með móðu á glerjum - enda 18 stiga frost utandyra. Þannig má segja að það hafi verið örlítið notalegt að sitja þröngt og þétt við trogin.

Ég verð að segja að það var viss heiður að vera leikinn á sviði í fyrsta sinn og að sviðsmyndin var jarðskiki okkar, Stormur. 

Mig sjálfan lék Þór Skógarvörður í Hallormsstað og fórst það ágætlega úr hendi. Hann er skolhærður og álíka hávaxinn og ég, að sjálfsögðu voru sett gleraugu á nefholdið á honum og sígaretta í skoltinn. Einnig var hann íklæddur reiðbuxum sem hefðu getað verið mínar eigin. Það var þó bláköld staðreynd sem blasti við mér, rassskorann stóð upp úr buxunum - eða buxurnar voru fyrir neðan rassskoru. Það sem á daglegu máli er kallaður pípararass. Það var bæði skrítið og fyndið að gera sér grein fyrir því, að á Völlunum þar sem ég ríð út, þar hef ég kynnt mig sem manninn með rassskoruna. Ég dáðist þó að því hvað Þór Skógarvörður er með áþekka skoru og ég.

....og hákarlinn var hæfilega kæstur.

laugardagur, 7. febrúar 2009

Kippum úr bakkgír

Þessa dagana erum við að velja okkur dýpri kreppu en við þurfum að lifa við. Stýrivextir eru hagstjórnartækið sem við beitum til þess.

Þau fáu prósent þjóðarinnar sem eiga enn pening sitja á seðlunum eins og ormur á gulli - eða eins og Davíð í stólnum - og geyma fjármagnið í banka meðan hægt er að fá frábæra verðtryggða raunvexti. Þú gerir ekkert betri díl en það. Fjármagnið sem atvinnulífið þarf á að halda er því í sjálfu sér læst inn í banka í krafti stýrivaxta.

Hvað myndi gerast ef stýrivextir yrðu lækkaðir. Jú, sparifjáreigendur fengju neikvæða raunvexti og þyrftu að hugsa sér nýjar sparnaðarleiðir eins og fasteignakaup, fyrirtækjarekstur og aðrar fjárfestingar. Það litla fjármagn sem enn er til kæmist þannig í umferð og kæmi til með að kippa atvinnulífinu úr bakkgír. Verðbólgan hefur ekki skapast vegna víxlhækkunar launa og verðlags, eða vegna vaxandi eftirspurnar - heldur vegna hruns krónunnar. Þess vegna geta háir stýrivextir ekki haft þau áhrif að verðbólga lækki, heldur hækkar hana í ljósi þess að fyrirtæki þurfa í sífellu að hækka vöruverð til að standa undir hærra vaxtastigi um leið og þau reyna að komast hjá gjaldþroti. Þetta er tiltölulega einfalt mál, sem margir virðast flækja fyrir sér - þrátt fyrir að hafa lesið hagfræðiskruddur í mörg, mörg ár.

Það er því tiltölulega einföld aðgerð sem er mikilvægust í stjórn efnahagsmála á þessum tímapunkti, og hrópar svo augljóslega á okkur.

Ef að þessi aðgerð er ekki fær vegna IMF, þá er augljóst að við höfum glatað sjálfstæði okkar - og því ekkert einfaldara en að sigla til Noregs og undirrita gamla sáttmála á nýjan leik.

.....koma svo!


föstudagur, 6. febrúar 2009

Hvísl dagsins....

Áhugavert hvernig AMX.is (bloggvefur hægri-manna) gerir sig breiðan í fuglahvísli sínu, og virðist hafa tekið sér hlutverk sem einhverskonar "yfirlögga" á fréttamenn og fara meira að segja ekki mjög fínt í það. Svona eins og "Arnar Gauti" tískuheimsins.

Nú fara þeir frekar hörðum höndum um blaðamann mbl.is og kalla þar að auki mann sem hefur fengið hraðakstursbrot "dæmdan glæpamann". Rétt eins og hann hafi drýgt dauðasynd. (samt er ekkert minnst á aksturs og auðgunarglæpi núverandi þingmanna AMX listans.

Gjaldþrota Kaupfélag?

Það riðar víst flest til falls.

Nú berast um það óljósar fréttir í bænum mínum að kaupfélagsstjóri KHB hafi sagt upp störfum í gær og að í gærkvöldi hafi öllum starfsmönnum í Samkaupum hér fyrir austan verið sagt upp störfum. Staða þess starfsfólks sé óljós, jafnvel standi til að endurráða það á lakari kjörum - reyndar telja sumir kjörin geti ekki orðið lakari en nú.

Kaupfélagið hérna hefur átt á vandræðum í talsverðan tíma. Upphaflega var það samvinnufélag bænda sem hefur þróast síðustu ár út í að þjónusta allar aðrar atvinnugreinar en landbúnaðinn. Mjólkurstöðin var seld og Sláturhúsið varð að engu. Eftir stóð rekstur bensínstöðvar, verslana um allt Austurland og kaup á stærsta verktakafyrirtæki Austurlands, sem varð svo gjaldþrota fyrir stuttu.

Sagan virðist því miður ein sorgarsaga undanfarin ár og enginn veit svosum hvort KHB heldur lífi eða ekki. Skvaldrið í bænum segir þá sína sögu um erfiða stöðu KHB, sem hefur þróast úr því að vera Samvinnufélag bænda yfir í eitthvað allt annað.

Seinni Sigmundur

Þessi frétt á DV.is er ansi hreint stórfengleg.

Sigmundur Ernir á leiðinni í framboð í Norðausturkjördæmi. Hef ekki séð hann bregða fyrir fæti á Austurlandi síðan hann var í þættinum Á Líðandi Stundu með Ómari Ragnarssyni. Ákvörðun hans um framboð í Norðausturkjördæmi er helst skiljanleg í ljósi þess að þar er kannski ekki beint um auðugan garð að gresja hvað varðar styrk frambjóðenda. Kristján Möller hefur þótt ágætur samgönguráðherra fyrir kjördæmið, en manni heyrist Einar Már Sigurðarson vera í veikari kantinum, að mati Akureyringa og Héraðsmanna. Hann hafi einfaldlega ekki staðið undir væntingum félagsmanna síðastliðin misseri.

Ef ég skil málin rétt í Norðausturkjördæmi, þá mun Benedikt Sigurðarson aðjúnkt gefa kost á sér í fyrsta sætið. Samkvæmt því sem maður heyrir á götunni þá gætu margir hugsað sér Aðjúnktinn mjög ofarlega á listanum. Þess vegna muni Einar Már eiga mjög undir högg að sækja, og hann megi teljast heppinn ef hann nær að leggja Aðjúnktinn í keppni um annað sætið. Flestir eru sammála um að Möllerinn haldi fyrsta sætinu.

Sigmundur Ernir gæti því flækt stöðuna eilítið. Ferill hans í fjölmiðlum gefur honum sjálfsagt það forskot að þurfa sáralítið að kynna eigin persónu. Málefnin eru hins vegar flókin í Norðausturkjördæmi og byggja að mestu leyti á flókinni samsetningu á hugðarefnum kjósenda, sem munu vera vegamál, jarðgangnamál, nýting orkuauðlinda, álver, olíuauðlindir á Drekasvæðinu, sjávarútvegsmál og gífurleg reiði. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig Sigmundi tekst að lesa í hvernig best er að tala á mjög mismunandi hátt í flokksfélögum Samfylkingar í norðaustur.

Það gæti því orðið niðurstaðan að ef Sigmundur fer fram í Norðaustur fyrir Samfylkingu, frekar en Framsóknarflokk í Suður, að Kristján Möller verði í fyrsta sæti, Benedikt Sigurðarson í öðru sæti, Sigmundur Ernir í þriðja sæti og Einar Már Sigurðarson í fjórða sæti.
________________

Spurning hvort Sigmundurnafnið verði samnefnari fyrir skjótan árangur í pólítík. Það er þó ljóst að seinni Sigmundur er ekki beint kallaður inn af götunni.

fimmtudagur, 5. febrúar 2009

Flenging á Austurvelli

Ég bíð afskaplega rólegur eftir að Samfylkingin slái skjaldborg um heimilin í landinu. Enn þá rólegri er ég yfir ástandinu í þjóðfélaginu. Ég er salí rólegur þótt bankarnir vinni eins og einkahlutfélög þótt í eigu ríkisins séu. Það rennur ekkert hraðar í mér blóðið þótt að nýr forseti alþingis hafi verið kosinn, sem ég hafði ekki heyrt nefndan áður.

_________

Ég veit að stjórnvöld eru ráðalaus, og það er ég líka. Ég fékk þó örlætis tilfinningu um snefil af réttlæti þegar Sjálfstæðisflokkurinn hrökklaðist frá völdum eftir eigin gjörðir. Þeir höfðu boðið mér á sjóferð á götóttu fleyi án björgunarbáts - svona til að gíra upp latar krónur.

_________

Ég get alveg beðið í nokkur ár eftir þessari svokölluðu Skjaldborg um íslensku heimilin. Næsta tölublað Herðubreiðar mætti útlista þær hugmyndir, svo að maður viti að þær séu til.

__________

Feiti og stóri strákurinn sem hefur staðið ofan á litlu börnunum, lamið þau og rifið af þeim nestispeningana, grenjar við alþingisdyrnar þessa dagana og vænir litlu börnin um valdagræðgi. Svona spikdrengir eiga að vera í skammarkróknum.

__________

Hvað ætli myndu mæta margir ef auglýst yrði opinber flenging Jóns Ásgeir og Davíðs á Austurvelli á laugardaginn. Ég var að spá í svona 5 flengingum á beran bossann, er það of mikið?

__________

mánudagur, 2. febrúar 2009

æji

Soldið skrítin staðreynd að einn þriðji höfuðstóls skulda minna hef ég aldrei fengið lánaðan. Jámm, peningar sem hafa aldrei verið til, og ætlast er til að verði einhvern tímann til. Af því að vísitalan segir það.

Alveg magnað að skulda eitthvað sem maður hefur aldrei fengið, hefur aldrei verið til og verður kannski einhvern tíma til.

Ef ég HEFÐI, þá HEFÐI

Í Fréttablaðinu í dag ræði Árni M. Mathiessen um hvernig hann HEFÐI lagt fram frumvarp ef hann HEFÐI verið í ríkisstjórn sem HEFÐI fjallað um útgreiðslu aukalífeyrissparnaðar, sem hann HEFÐI lagt fram í dag.

Kannski HEFÐI hann fengið tækifæri til þess ef hann HEFÐI gert eitthvað fyrr í málum sem HEFÐI þurft að afgreiða sem fyrst.

laugardagur, 31. janúar 2009

Uppgerðarpopp á útlensku

Ég ætla að vera eilítið hallærislegur og ræða um júróvísíón. Aðallega vegna þess að ég lenti í því að horfa á undankeppnisþátt í kveld. Þáttastjórnendur voru tvær fallegar konur í kaupfélagssloppum.

Ég skyndilega furðaði mig á því af hvað við værum að vandræðast við að velja lag. Til hvers í ósköpunum við værum að rembast við að syngja útlenskan texta og uppgerðarpopp.

Svo sannfærðist ég um að líklega væri langkrúttlegast að senda einhverja átján ára bláeygða og saklausa stúlku í lopapeysu til að syngja fyrir okkur einfaldt og íslenskt ættjarðarljóðm með barnslegri rödd. Það þætti mér fallegt, viðeigandi og í takt við tíðarandann.

föstudagur, 30. janúar 2009

Hvalræði

Ég er ennþá að dást að flottustu smjörklípu ársins - þ.e. þegar Einar Ká Guðfinnsson leyfði skyndilega hvalveiðar, eða hvaldráp eins og sumir vilja kalla það. Þótt að verknaðurinn sé augljóslega til að kasta reyksprengju inn í stjórnarmyndunarviðræður, hefur manninum tekist að gera þetta að næst stærsta umfjöllunarefni vikunnar.

Þar sem ráðherra gat leyft hvalveiðar án aðkomu þingsins, getur hann einnig bannað þær - það er eitt af aðalatriðum málsins. Þess vegna er stór misskilningur í gangi um að þingflokkur Framsóknar komi til með greiða atkvæði með eða á móti hvalveiðum á alþingi - til þess mun einfaldlega ekki koma.

En það flottasta við þess smjörklípu, eða reyksprengju - er að þótt allir sjái hversu augljós hún er, þá getur enginn fjallað um hana án þess að láta skoðanir sínar í ljós.

Rökræða Kristjáns Loftssonar og Sigursteins Mássonar sem tók hálft Kastljósið, og ummæli Framsóknarformanns í sama þætti, undirstrikar snilldina og þau vandræði sem Einar Ká setti tilvonandi valdhafa í, þótt augljóst sé að nýr ráðherra afturkalli leyfi til hvalveiða - án umræðna í ríkisstjórn eða á alþingi. Rétt eins og Einar Ká.

Hann hefur meira að segja platað suma bloggara Samfylkingar til að fara í málefnalega ágreining við Framsóknarflokkinn.

...og í guðanna bænum ekki falla í þá gryfju að setja comment hér með eða á móti hvalveiðum.

fimmtudagur, 29. janúar 2009

Helfreðið

Síðdegis fékk ég gæsahúð á kafloðið bakið. Tilefnið var eitilmagnaður reiðtúr á helfreðnu Höfðavatni. Hvunndagurinn getur verið hreint magnaður, og spennandi. 

Get vottað að guð blessaði Ísland, þegar hann gaf okkur Töltið og Frostið.

miðvikudagur, 28. janúar 2009

Whisper in the wind

Gaman að fylgjast með því hversu fuglahvísl AMX.is fer fram í miklu hvassviðri þessa dagana.

Þar situr gríðargott skáld bakvið lyklaborð og gerir því í skóna að menn sem hafa ekkert erindi í pólitík séu á leiðinni í stjórnmál. Þar hvíslar mörgæsin því að Sigmundur Ernir sé á leið í Framsókn, og fyndnari útgáfan er að Egill Helgason sé á leið í stól Menntamálaráðherra.

Kannski gert til að reyta fiður af vaxandi fylgi Framsóknar og Samfylkingar, eða kannski mjög djúpur fyrirtaks húmor?

þriðjudagur, 27. janúar 2009

Áhugavert

Þetta er ákaflega áhugaverð frétt á Smugunni um útgáfu reglugerðar Einars Ká um hvalveiðar.

Áhugaverð útfrá ýmsum sjónarhólum:

Hver verður næsti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra?
Þorir nýr ráðherra að kalla reglugerðina tilbaka, eða vill hann það?
Af hverju gerði Einar Ká þetta ekki fyrr en á elleftu stundu?
Hversu stórt og mikið umboð hefur ráðherra til stórtækra reglugerða á seinasta starfsdegi?
Samþykkti Samfylkingin ekki hvalveiðar?
Mun Smugan halda áfram að fjalla um málið á tímum nýrrar ríkisstjórnar?

...og svo má velta því fyrir sér hvernig framhaldið verði á nýju málgagni ríkisstjórnarinnar, Smugunni.

...enn athyglisverðara verður að fylgjast með því hvernig Mogganum tekst að höndla stjórnarandstöðuhlutverk sitt. Einhver ný eða gömul taktík sem Staksteinar verða að tileinka sér á næstunni.

...það verður líka fróðlegt að fylgjast með því hvort og hvernig ÍNN breytist í kosningamiðstöð Sjálfstæðisflokksins á næstu vikum.

Fróðlegir tímar framundan, hvar sem litið er.

mánudagur, 26. janúar 2009

Kotbóndinn baðar sig....

Alveg merkilegt að fylgjast með kotbóndanum á Bessastöðum reyna að gera sig gildandi á sínum síðustu og verstu tímum.

Á svipuðum tíma og hann hefur nýsannað fyrir þjóðinni að embætti hans er gagnslaust gaul, þá heldur kotbóndinn afskaplega mikla óþurftar maraþonfundi með formönnum stjórnmálaflokkana. 

Og tekur sér svo umhugsunarfrest til morguns til að gera það sem öllum er augljóst - að veita umboð til myndunar minnihlutarstjórnar. Svo ætlar að hann að vakna berrassaður og halda fréttamannafund með cheeríós milli tannanna - þar sem hann tilkynnir það sem allir gátu vitað þegar kl. 14:00 í dag, en þá var forsetinn sjálfsagt í tásnyrtingu að æfa ræðuna um skilyrðin fjögur. 

Hann mun væntanlega tilkynna hversu ósofinn og vannærður hann er í fyrramálið yfir þessari ótrúlega erfiðu ákvörðun.

Þetta kallar maður að baða tær sínar eins lengi og mikið og hægt er í algjörlega óverðskuldaðri athygli.

Hvað sem verður...

Nú vita fáir hvort af minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna verður. Hvað sem verður, þá ættu þeir þingmenn sem verða ráðherrar í næstu ríkisstjórn að jafnframt að víkja úr sæti sínu á alþingi - hafi þeim verið nokkur alvara með gagnrýni sína á veika stöðu þingsins gagnvart framkvæmdavaldinu.

Það er einboðið - að svo verður að vera, hafi stjórnarandstöðunni verið einhver alvara með orðum sínum og gagnrýni.

föstudagur, 23. janúar 2009

Ríkisstjórnin klári

....að mörgu leyti er ég saddur. 

Kosningar í apríl eða maí fannst mér réttmæt krafa, og hefur nú loksins náð eyrum auðvaldsmanna. Tíminn fram að kosningum er fremur skammur, og ég held að það væri ágætt ef Auðvaldsmenn og Aumingjans Samfylkingarfólk haldi áfram að stjórna landinu fram að kosningum. Það er í raun hvort eð er ekki hægt að vinna meiri skaða í bili. Eftir kosningar gætu skilin svo orðið skýr - ný lög um Seðlabankann gætu þá tekið gildi og Davíð knúsaður ásamt Jónas í Hvalnum sem yrði þá kysstur bless úr FME o.s.fr.v.

Auðfúsar hendur auðvaldsins í Samfylkingunni geta þá legið áfram með hendur í skauti og kosið óbreytt ástand enn um sinn. Þannig gæti Samfylkingin lagt enn frekari áherslu á markmið sín um ekki neitt fyrir kosningar og verið kosin af öllum sínum verðleikum sem þau hafa að bjóða.

Það væri óðs manns æði fyrir nokkurn stjórnarandstöðuflokk að fara í stjórn með aumingja Samfylkingunni - sem þjáist af ístöðuleysi, leiðtogaleysi, skorti á markmiðum og síðast en ekki síst viljaleysi til að framkvæma yfirlýsta stefnu sína.

Þetta þýðir ekki að ég styðji ríkisstjórnina, en mér finnst einhvern veginn sjálfsagt að Auðvaldsmenn og Aumingjans Samfylking fái tækifæri til að klára verk sitt, sem er að grafa sína eigin gröf.

fimmtudagur, 22. janúar 2009

Án ökuskirteinis

Ég veit lítið um jeppa, mótorhjól, vélsleða, báta og Samfylkinguna. Ég veit bara að vélknúnum farartækjum var upphaflega ætlað að komast á milli staða.

....þess vegna hlýtur Samfylkingin að vera bensínlaust farartæki, sem kemst ekki lengur milli staða. Með tuttugu aftursætisbílstjóra, bílstjóra í veikindafríi og varabílstjóra án ökuskirteinis.

....Lýsing gæti komið að sækja skrjóðinn ef svo fer fram sem horfir.

Spurning hvað gerist þegar formaðurinn kemur heim. Líklegast spurning sem brennur á mjög mjög mörgum.

miðvikudagur, 21. janúar 2009

Aðeins einn kostur

Að öllum líkindum yrði það enn ein flónskan af hálfu Samfylkingar ef hún tæki ekki boði Framsóknarmanna um stuðning við minnihlutastjórn fram að vorkosningum. Það myndi þá koma í bersýnilega í ljós hvers lags spjátrungar eru í þeim þingflokki, ef tilboðinu verður neitað.

Samfylkingin hefur aðeins einn kost, ef hún hefur áhuga á að vera stjórnmálaflokkur áfram.

Öll vötn virðast renna til Dýrafjarðar.

þriðjudagur, 20. janúar 2009

Elska þau Ísland?

Hættan eykst með hverjum deginum að stórslys verði í tengslum við mótmæli við sitjandi ríkisstjórn. Forsætisráðherra hefur sjálfur sagt að svokölluðum rústabjörgunum sé lokið. Mótmælendur munu halda áfram þar til ríkisstjórnin boðar til kosninga. Líklegast væri best að allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar, og margir reyndir þingmenn, gæfu ekki kost á sér á nýjan leik til þáttöku í stjórnmálum. Svo herfilega illa lesa þeir í núverandi stöðu.

....þetta snýst ekki lengur um pólitíska kænsku - heldur hvort ráðherrar elska land sitt og þjóð svo mikið að þau séu tilbúin til að leyfa okkur að njóta vafans.

Því lengur sem ríkisstjórnin dregur óhjákvæmilega ákvörðun um að stíga til hliðar - því meira aukast líkurnar á stórslysi.

Þetta er svona auðvelt....


mánudagur, 19. janúar 2009

Hækkandi meðalbros

Ég á heima í þorpi þar sem nálægt helmingur er Framsóknarfólk. Það eru mörg brosandi andlit sem ég hef séð í morgun, og áberandi margt Framsóknarfólk brosir í dag.

.....og símastaurarnir syngja.

Uppfært: og United á toppnum í enska.

þriðjudagur, 13. janúar 2009

Skilaboðin frá Svíþjóð....

Þættinum var að berast bréf: (birt óbreytt)

"Sæll Meistari, ég var í Háskólabíói í gærkvöld þar sem þetta með skilaboðin kom fram (sjá link). Ég hef heimildir fyrir því að hið rétta sé að aðstoðarmaður Ingibjargar, Kristrún Heimisdóttir hafi komið boðunum fá Ingibjörgu, alla leið frá sjúkrahúsinu í Svíþjóð, til skila til Sigurbjargar ræðumanns og svo sat Kristrún á fremsta bekk á borgarafundinum eins og einhver vörður til að ræðumaðurinn segði nú örugglega ekki neitt of neikvætt um heilbrigðisráðherra eða heilbrigðiskerfið. Soldið langt gengið þegar ráðherrar Samfylkingar eru farnir að verja ráðherra Sjálfstæðisflokks með slíkum aðferðum, Samfylkingin ætlar sem sagt að hjálpa til við að einkavæða heilbrigðiskerfið. Rikisstjórnin ætlar ekki að fara frá, NÓ MATTER WOTT! En mig grunar hins vegar að stjórnin hangi á bláþræði."

Það má því segja að Kristrún hafi verið boðberi geislavirkra skilaboða, ef það er einhver glóra í heimildamanninum.

mánudagur, 12. janúar 2009

Óli bæjó er almennur borgari

Bæjarstjórinn á Seyðisfirði kallar ekki allt ömmu sína og segir það sem hann hugsar, og hugsar það sem hann meinar.... o.s.fr.v.

http://www.visir.is/article/20090111/FRETTIR01/513767454

Leiðinda samanburður m.v. fólksfjölda

Mjög einfalt reikningsdæmi sýnir að 0,01% þjóðarinnar hefur sett Ísland á hausinn, ef við gefum okkur að fullyrðingin um að 30 auðmenn hafi gert Ísland gjaldþrota sé rétt. Þetta virðast fáir menn við fyrstu sýn.

Gefum okkur hins vegar að Þýskaland færi á höfuðið á sömu forsendum, og með sama hlutfalli auðmanna. Þá þarf 7.000 auðmenn til að fylla sama hlutfall á móti mannfjölda. Líklega þætti það gríðarlegur fjöldi auðmanna.

....jah, bara pæling :)

laugardagur, 10. janúar 2009

Sátt um fiskinn okkar

Ég er einn af þeim stunda upphrópanir án lausna annað slagið.

Ég hef frábæra(?) hugmynd um tiltekna lausn, sem ég vona að fleiri hafi eða fái.

Málið varðar sjávarútveginn sem er skuldsettur að fullu, og rúmlega það. Ég legg til að það verði skoðað af fullri alvöru að gera eftirfarandi:

1. Kalla alla útvegsmenn á fund.

2. Tilkynna þeim að ríkið hafi leyst til sín öll veð á kvóta frá íslensku bönkunum.

3. Tilkynna þeim um að ríkið hafi leyst til sín öll veðbönd á íslenskum kvóta erlendis.

4. Tilkynna þeim að í upphafi næsta fiskveiðiárs hafi þeir sama kvóta og áður, en veðskuldir þeirra hafi verið felldar niður, þar sem ríkið fari nú með veiðiheimildirnar og eigi þær.

5. Tilkynna þeim að næsta veiðiár á eftir standi eftir 90% veiðiheimildum þeirra. 10% kvótans verði boðin til leigu á frjálsum markaði, og þurfi þeir að greiða sama einingaverð fyrir restina af veiðiheimildunum eins og markaðurinn er tilbúinn að greiða fyrir 10%. Að öðrum kosti þurfi þeir að leggja veiðiheimildarnar inn og skila þeim. Þannig sé þeim veitt aðlögun og skilyrði til að hagnast af fiskveiðum á nýjan leik, án þess að of stór veiðiheimilda sé felldur niður á skömmum tíma.

6. Tilkynna þeim að árlega eftir þetta taki ríkið til sín 20% veiðiheimildum þeirra og bjóði út á frjálsum leigumarkaði. Þeim sé frjálst að bjóða í á frjálsum markaði.

7. Tilkynna þeim að þeir megi víkja af fundinum og halda áfram að veiða fisk.

8. Í framhaldinu ákveðið að sömu lög gildi fyrir öll skip og báta, sama af hvaða þyngd þau eru.

9. Tilkynnt um að allar tekjur af útleigu á fiskveiðiheimildum verði nýttar til að greiða niður tap
þjóðarinnar á niðurfellingu veðskulda sjávarútvegsins í nokkra áratugi.

10. Tilkynnt um að leigukvóta sé hægt að versla með á frjálsum markaði, enda ekki um varanleg veiðiréttindi að ræða. Þannig fái þjóðin hámarksarð af veiðiheimildum.

11. Tilkynnt um að auðlindaráðherra fari með málefni sjávar- og olíiuauðlinda og honum verði falið að starfa eftir nýjum lögum um auðlindaleigu.

12. Tilkynnt um að þetta sé aðeins fyrsta skrefið í átt að þjóðarsátt. Málið hafi borið brátt að og aðeins framkvæmt á tveimur vikum, því muni stjórnvöld áskilja sér rétt til að sníða af því alla þá annmarka sem upp geti komið.

Tiltölulega einfalt mál eða hvað?

föstudagur, 9. janúar 2009

JAFNAÐAR-geð á Boggunni

Einhverjar mestu gungur íslenskrar stjórnmálasögu sitja í þingflokki Samfylkingar. Þar situr fólk með hugsjónir í höfði, en algjöran skort á þori og þreki til að standa með eigin sannfæringu. Trúa því í villu síns vegar að þjóðsagan um flokksaga Davíðstímans, sé eina leiðin í átt að árangri.

Menn sem klöppuðu og flissuðu í kameruna á borgarafundi í Háskólabíói, Helgi Hjörvar og Árni Páll. Unglingurinn sem stamaði í myndavélina að Seðlabankastjórnin yrði að víkja, Ágúst Ólafur. Kerlan sem staðhæfði að sinn tími myndi koma, þið vitið hver það er. Og svo alltof margir fleiri.

Allt eru þetta skipverjar á Boggunni. Kratarnir hafa sýnt sitt rétta andlit. Trúin um að þeir hafi völd, en eru í raun án valda. Láta segja sér fyrir verkum í þinginu og eru hjásvæfur og skækjur sem láta borga sér með stöku túkalli – þótt þau viti að nú er túkallinn einskis virði.

Eru með utanríkisráðherra sem eyddi árinu 2008 í kosningabaráttu fyrir öryggisráð Sameinuðu Þjóðanna og PR herferð fyrir Kaupþing, Glitni og Landsbankann. 

Eru með iðnaðarráðherra sem hafði árið 2008 mestan áhuga á að auka raforkuframleiðslu í Arabíu og Afríku og náði stærstum árangri í þeirri vegferð þegar hann varð þess heiðurs aðnjótandi að hitta sjálfan Boris Becker í lyftu. Á einhverju glæsilegu hóteli á Abu Dhabi, þar sem Elton John gisti ásamt lífvörðum. Reynir svo að klóra í bremsufarið í buxum sínum með falskri lofræðu um íslensk sprotafyrirtæki, stuttu eftir að töfrasprotafyrirtækin hættu að borga undir vegferð hans.

Eru með félagsmálaráðherra sem hafði öll árin eftir að hafa verið félagsmálaráðherra fyrir Alþýðuflokkinn barist gegn verðtryggingu og haft áhyggjur af hag heimilana. Þeirri baráttu lauk snögglega þegar hún varð félagsmálaráðherra á nýjan leik fyrir Samfylkingu. Hennar tími var sko loksins kominn – og er farinn.

Eru með umhverfisráðherra sem allt árið 2008 barðist gegn því að stóriðnaður fengi brautargengi. Ennþá hefur vart spurst til ráðherrans síðan hún baðaði sig í blóði ísbjarnar í sumar.

Eru með viðskiptaráðherra sem hefur lítið nema djúpa röddina til að fela sig fyrir barnslegum mistökum og ræfilshætti. Sem lét bjóða sér að vera ekki með í ráðum þegar stórar ákvarðanir voru teknar í atburðarás bankahrunsins og er yfirmaður mest gagnslausu stofnunar landsins – FME. Sakaður um stórkostleg mistök í Icesave málinu.

Já og svo með samgönguráðherra sem hefur fá asnastrikin gert, en lætur girða sig í þrönga brók Boggunnar.

Og svo sitja sannkallaðar skækjur þeirra í þingflokknum og sætta sig við að enginn raunveruleg lausn hafi verið borin á borð þeirra síðan í byrjun nóvember og stæra sig af því að nú sé Boggan búin að sigla utan í árabát Sjálfstæðisflokksins sem jafnvel þurfi að sækja um aðstoð frá björgunarsveitinni júrópu.

Þetta er Boggan sem siglir um í gervi jafnaðarmanns, en er í raun fljótandi spilavíti með hjásvæfum fyrir túkall.

Og sumir taka því með með JAFNAÐAR-geði.

fimmtudagur, 8. janúar 2009

Bandið hans Bubba

Í mogganum í dag eru Bubbi og félagar í Egó að plögga. Bubbi er víst með nýtt lag. Þjóðfélagsádeilu.

"Sem verður að komast í spilun sem fyrst, meðan ástandið í þjóðfélaginu er enn svona slæmt." segir Bubbi.

...og manni er spurn. Er ástandið eitthvað að fara að lagast?

miðvikudagur, 7. janúar 2009

Ísland í hnotskurn

Skýjum ofar



Fyrri skjámynd dagsins er í boði Flugfélags Íslands, sem virðist vera eina Flugfélag í Evrópu sem hækkar verð og fækkar tilboðum þegar dregur úr viðskiptum. Síðan árið 1998 hefur Flugfélag Íslands ALDREI lækkað verð. Á skjámyndinni sést verðhugmynd á ferðalaginu Egilsstaðir - Reykjavík - Egilsstaðir





Síðari skjámynd dagsins er í boði Iceland Express og er þar að finna verðhugmynd á flugi milli Keflavíkur og Köben, svona til samanburðar.



þriðjudagur, 6. janúar 2009

Nýja Verslunarmannafélagið

Hef sem félagi í VR (lesist; Virðing Réttlæti) fylgst með í fjarska átökum almennra félagsmanna og forystu félagsins. Það virðist vera flóknara fyrir félagsmennina en þeir gerðu ráð fyrir að fá stjórnarsæti í félaginu í krafti lýðræðis heldur en gert var ráð fyrir. Svo virðist sem lög og reglur félagsins geri ekki ráð fyrir öðru en að það sé stofnun skrifræðis og stóla.

Hví stofna almennu félagsmennirnir ekki nýtt félag? Það gæti t.a.m. heitið Nýja Verslunarmannafélagið og haft nokkur hundruð stofnfélaga.

Hafið bláa hafið

Það er í sífellu verið að benda mér á fleiri rök fyrir kosningum sem allra fyrst. Hér segir hispurslaust frá því hvernig ráðamenn vilja veita einni atvinnugrein, einu sinni sem oftar, sérstaka forgjöf í íslensku atvinnulífi.

Hér tekur fyrrverandi fangi afdráttarlaust undir þessar skoðanir.

Hvað ætli það sé sem fær fólk til að álykta að ein atvinnugrein sé rétthærri öðrum. Skildi þetta standast jafnræðisregluna?

Mér þætti vænt um ef þessir menn afhjúpi sig og geri þetta að sérstöku kosningamáli.

sunnudagur, 4. janúar 2009

Ríkisleyndarmál

Eftir tölvupóstsamskipti mín við Guðrúnu Jónsdóttur deildarstjóra hjá vísitöludeild hagstofunnar hef ég komist að því að það er trúnaðarmál á hvaða forsendum höfuðstóll íbúðalána minna er byggður. Ég óskaði semsagt eftir upplýsingum um málið og fékk sendar almennar upplýsingar um útreikninga neysluvísitölu til verðtrygginar. Ég spurði því:  "Skil ég þig þá rétt að þið teljið þagnarskyldu og trúnað ríkja um þá vörulista er grundvalla vísitölu neysluverðs til verðtryggingar?"

Svar Guðrúnar var:

"Sæll. Já það er rétt skilið. Við afhendum aldrei vörulista eða einstakar verðupplýsingar sem við söfnum. Það er mjög mikilvægt fyrir starf okkar að trúnaður ríki, annars yrði mjög erfitt fyrir okkur að fá verslanir og þjónustufyrirtæki til að láta okkur upplýsingarnar í té.
Með kveðju,
Guðrún"

Mér hafði leikið sérstök forvitni á því hvaða vöruverð grundvalla höfuðstól skulda minna. Samkvæmt svari Hagstofunnar er það algjört trúnaðarmál. Fyrir mér er um ákveðið prinsipp mál að ræða. Ég hef ákveðin rétt á að vita hvaða heimildir breyta höfuðstól skulda minna mánaðarlega. Hver er það sem fer yfir vörulistann fyrir mína hönd? Hver verndar hagsmuni mína þegar endanlega vísatala er ákveðin um hver mánaðarmót?

Hvort ætli verð á sófasetti eða golfsetti hafi meiri vigt í vísitölunni? Mig langar svo að vita þetta.

föstudagur, 2. janúar 2009

Stórkostleg útgáfa Þingmúla

Inn um bréfalúguna hefur flogið í dag aldeilis frábært blað með bláum haus. Þingmúli heitir það. Málgagn sjálfstæðifélags Fljótsdalshéraðs og Borgarfjarðar eystri.

Forsíðuskríbent blaðsins er enginn annar en Kristján Þór Júlíusson, 1. þingmaður Norðausturlands. Leiðinlegt að boðskapur Kristjáns berist ekki norður yfir heiðar - því hann er hreint æðislegur. Grípum niður í skrif Kristjáns:

"Sumir ganga jafnvel svo langt að líkja ástandinu við kreppuárin miklu á Íslandi milli stríða. Hvílík fásinna, heyr á endemi."

Svo hnykkir 1. þingmaðurinn á málflutningi sínum með ákaflega velvöldu ljóði eftir Sigurð Breiðfjörð:

"Ég er snauður, enginn auður,
er í hendi minni.
Nærri dauður, drottins sauður,
í djöfuls vesöldinni."

Það er ekki langt síðan ég velti því jafnvel fyrir mér að Kristján væri vandaður maður, um tíma hrósaði ég honum jafnvel í hljóði - nú get ég ekki annað en iðrast fyrrverandi hugsana minna.

_____________________________

Í sama blaði á síðu tvö svarar Soffía Lárusdóttir forseti bæjarstjórnar spurningalista frá ritnefnd Þingmúla um samvinnu sveitarfélaga á Austurlandi. FRÁBÆRT. Það hefur sjálfsagt kostað marga ritnefndarfundi að semja svo velyddaðar, eitraðar og gagnrýnar spurningar.

_____________________________

Á síðu þrjú skrifar Ólöf Nordal alþingiskona Sjálfstæðisflokksins um það hversu illa allir voru undirbúnir bankahruninu, já og erfitt geti verið fyrir almenning að greiða lausaskuldir - stórkostleg uppgötvun.

_____________________________

Á síðu fjögur svarar Valdimar Hermannsson í Fjarðabyggð sama spurningalista og lagður er fram á síðu tvö.

_____________________________

Á síðu fimm svarar Ólafur H. Sigurðsson á Seyðisfirði sama spurningalista og lagður er fram á síðu tvö og fjögur.

_____________________________

Á síðu sex skrifar Adolf Guðmundsson, útgerðarmaður á Seyðisfirði og formaður LÍÚ um mikilvægi sjávarútvegsins og andstöðu útvegsmanna við inngöngu í Evrópusambandið. Kemur á óvart. Fyrirtæki hans Gullberg auglýsir á síðu þrjú.

_____________________________

Á síðu sjö skrifar Þráinn Lárusson hreint ágætis hugleiðingu um einelti.

_____________________________

Á síðu átta skrifar Katla Steinsson um ferðaþjónustu.

_____________________________

Á síðu níu skrifar Erna Indriðadóttir upplýsingafulltrúi algjöra tímamótagrein um álver Alcoa. Hún greinir frá því eins og komið hefur fram í tugi skipta í öllum fjölmiðlum að hjá fyrirtækinu starfi nokkur hundruð manns, álverið sé algjörlega fullkomið, lágmörkun áhrifa framleiðslunnar á umhverfið og íbúafjölgun.

_____________________________

Á síðu tíu skrifar þingflokksformaðurinn og Seyðfirðingurinn, Arnbjörg Sveinsdóttir, um efasemdir sínar um inngöngu í Evrópusambandið. Hún hvetur alla Austfirðinga sem áhuga á hafa á Evrópumálum til að heimsækja: http://www.evropunefnd.is og svo óskar hún mér gleðilegrar jólahátíðar.

_____________________________

Því miður kemur hvergi fram hverjir eru í ritnefnd Þingmúla því um einstakt barátturit er að ræða...... þar sem öll helstu baráttu og stefnumál Sjálfstæðismanna er tíunduð - þ.e. Status Quo.

Íslenska kjötsúpan

Í byrjun árs:

Sjálfstæðiflokkurinn hefur verið við völd á Íslandi og haft forsæti að einu ári undanskildu allt frá því Viðeyjarstjórnin varð staðreynd árið 1991. Þá var hafist handa við að hræra íslenska kjötsúpu, þá dýrindis máltíð. Nú eru tæpir tveir áratugir liðnir og frjálshyggjan hefur staðið við kjötkatlana og hrært í súpunni án þess að svo mikið sem eitt atkvæði hafi truflað einbeitinguna. Flokkurinn hefur náð fram sínum helstu stefnumarkmiðum, og í raun fátt að finna í stefnuskrá flokksins sem ekki hefur komist í framkvæmd. Sjálfstæðiflokkurinn er því í reynd farsælasti stjórnmálaflokkur Íslandssögunnar því hann hefur náð fram lykilatriðum í stefnu sinni, með fulltingi samstarfsflokka sinna. Fyrst Alþýðuflokks, síðar Framsóknarflokks og nú Samfylkingar. Hugsjónir Sjálfstæðismanna hafa verið framkvæmdar, án truflunar.

Í hlutverki Georgs Bjarnfreðarsonar
Þegar að hræra á í góða kjötsúpu skal vandað vel til verks. Besta mögulega hráefni er valið. Þegar að tveir kokkar elda sömu súpuna er augljóst að málamiðlunar er þörf. Vilji annar kokkurinn skella rófum í súpuna, hlýtur hinn kokkurinn að velja aðra góða grænmetistegund á móti. Þannig hefur reyndin hins vegar ekki verið. Sjálfstæðiflokkurinn hefur óáreittur fengið að velja grænmeti, kjöttegundir og krydd í sína óvéfengjanlegu kjötsúpu. Hver þekkir ekki sögupersónurnar úr Nætur- og Dagvaktinni, þá Georg Bjarnfreðarson og Ólaf Ragnar. Oft á tíðum hefur virst sem samstarfsflokkar frjálshyggjunnar hafi verið viljalaust verkfæri í hlutverki Ólafs Ragnars. Meðan Sjálfstæðiflokkurinn hefur verið í hlutverki Georgs Bjarnfreðarsonar og dóminerað aðkomu sína að súpunni, með réttu eða röngu. Hefur skipað þessum saklausu einfeldningum fyrir verkum. Sent þá til að slátra búfé í súpuna og afhýða rófur og kartöflur. Skítverk frjálshyggjunnar hafa fallið í hlut samstarfsflokka frjálshyggjunnar í nær tvo áratugi. Samstarfsflokkarnir hafa rétt frjálshyggjunni hráefni í hina íslensku kjötsúpu., oft á tíðum hráefni sem vitað er að ekki á heima í þeirri tegund af kjötsúpu sem flestir vilja leggja sér til munns.

Hland Browns í súpunni
Það þarf víst örugglega ekki að fjölyrða um þær staðreyndir sem nú blasa við í íslenskum þjóðarbúskap. Ég man að góður vinur sagði í október: “Við erum búin að vera.” Ég vona að það sé ekki reyndin, en á erfitt með að finna setningu sem lýsir stöðu okkar betur. Helsta trú frjálshyggjumanna er að Gordon Brown hafi migið í súpuna með hjálp Evrópusambandsins. Það má kannski segja að meistari Brown hafi lagt til hland í súpuna. En það má líka með sanni segja að Sjálfstæðismenn hafi hleypt manninum inn í eldhúsið og haldið í hjá honum meðan hann sullaði í súpuna. Þeir segjast ekki hafa séð það fyrir.

Nú vill það aðalsfólk sem hefur hrært fyrir okkur úldna, viðbrennda og óæta súpu með kæfusoðnu kjöti halda áfram að hræra okkar íslensku kjötsúpu. Fyrir mitt leyti get ég ekki gefið leyfi fyrir því. Lélegur kokkur leggur alltaf upp með að elda dýrindis máltíð, hann vill matargestum jú allt hið besta. Þegar matargestir liggja á gjörgæslu með matareitrun eftir svoleiðis kokk, þá hlýtur kokkurinn sjálfur að sjá að ef til vill væri rétt að láta aðra matreiðslumenn sjá um ómakið. Svona meðan hann fer yfir uppskriftabók sína og lærir að elda nýja rétti.

Smjörklípur Sjálfstæðismanna
Sjálfstæðismenn hafa sagt: “Enginn gat séð þetta fyrir.....”, “20-30 einstaklingar urðu okkur að falli.....”, “Gordon Brown er vondur maður.....”, “Jón Ásgeir setti Ísland á hausinn......” “Björgólfur segir ekki satt.....” og svo ótal margt annað. Eilítið sannleikskorn í hverri setningu, en hvergi komið að kjarna málsins. Allt sem þeir segja er til þess fallið að draga athyglina frá því hver var yfirkokkur í þessu samkvæmi. Kokkurinn slökkti ekki undir súpu sem löngu var soðinn upp úr og ólyktina lagði um gjörvalla Evrópu. Fyrir mitt leyti læt ég ekki blindast af eitraðri gufu Frjálshyggjusúpunnar. Ég vill fá nýja uppskrift og nýjan kokk. Standir þú uppi með úldna súpu þá hrærir þú ekki í hina áttina – þú byrjar með hreinan og nýþveginn pott.

fimmtudagur, 1. janúar 2009

Frábær Ólafur Ragnar Grímsson

Nýársávarp forseta Íslands: bla bla bla bla bla bla bla bla bla bla bla bla í einhverjum kjánalegum rhythma - svona eins og þegar reynt er að sefa ungabörn.

Króna/EURO